Hoppa yfir valmynd
4.6.2014
Isavia veitir 24 björgunarsveitum samtals átta milljónir í styrki

Isavia veitir 24 björgunarsveitum samtals átta milljónir í styrki

Hörður Már Harðarson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar tekur við styrkjunum úr hendi Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia.

Á stjórnarfundi Slysavarnafélagsins Landsbjargar í gær, veitti Isavia 24 björgunarsveitum um land allt samtals 8 milljónir króna í styrki til kaupa á búnaði sem eflir sveitirnar í viðbúnaði við hópslysum, slysum utan alfaraleiðar og á fjölförnum ferðamannastöðum. Þetta er fjórða árið í röð sem veittir eru styrkir til björgunarsveita úr Styrktarsjóði Isavia og samtals hafa verið veittar um 30 milljónir úr sjóðnum.

Styrktarsjóður Isavia var stofnaður árið 2011 og hefur þann tilgang að efla hópslysaviðbúnað björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar með sérstaka áherslu á björgunarsveitir í nágrenni flugvalla og fjölfarinna ferðamannastaða. Meðal annars er horft sérstaklega til þess að úthlutanir taki mið af heildstæðu mati á hópslysaviðbúnaði mismunandi svæða, sem og fjölþættu notagildi búnaðarins. Með þessu vill Isavia hjálpa björgunarsveitum að takast á við aukið álag sem fylgir auknum straumi ferðamanna til landsins. Frá upphafi verkefnisins hafa 82 umsóknir verið sendar inn og af þeim hafa 65 hlotið styrk úr sjóðnum.

Við þetta tilefni sagði Hörður Már Harðarson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, að mikilvægt væri fyrir félagið og björgunarsveitir að eiga að sterkan bakhjarl sem Isavia. „Þetta framtak hefur gert björgunarsveitum kleift að byggja upp hópslysabúnað um land allt og þar með eflt viðbragð þeirra til muna. Mikil aukning ferðamanna um land allt kallar á aukinn viðbúnað og bestur árangur næst þegar aðilar sem að koma taka höndum saman, líkt og Isavia og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa gert í þessu tilviki.“

Eftirfarandi sveitir hlutu styrk úr sjóðnum að þessu sinni:
Björgunarsveitin Kyndill Mosfellsbæ
Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík
Hjálparsveit skáta Garðabæ
Hjálparsveit skáta Reykjavík
Björgunarsveitin Sigurvon Sandgerði
Björgunarsveitin Suðurnes Reykjanesbæ
Björgunarsveitin Þorbjörn Grindavík
Björgunarfélag Árborgar
Björgunarfélagið Eyvindur Flúðum
Björgunarsveitin Brák Borgarnesi
Björgunarsveitin Heiðar í Borgarfirði
Björgunarsveitin Klakkur Grundarfirði
Björgunarsveitin Blakkur Patreksfirði
Björgunarsveitin Björg Suðureyri
Björgunarsveitin Sæbjörg Flateyri
Björgunarfélagið Blanda Blönduósi
Björgunarsveitin Strönd Skagaströnd
Súlur – Björgunarsveitin á Akureyri
Björgunarsveitin Hafliði Þórshöfn
Björgunarsveitin Þingey Þingeyjarsveit
Hjálparsveit skáta Aðaldal
Björgunarsveitin Hérað Egilsstöðum
Björgunarsveitin Ísólfur Seyðisfirði
Björgunarfélag Vestmannaeyja