Hoppa yfir valmynd
27.1.2014
Isavia veitir 3 milljónum króna í styrki til samfélagsverkefna

Isavia veitir 3 milljónum króna í styrki til samfélagsverkefna

Styrktarsjóður Isavia hefur veitt 2.925.000 króna til níu samfélagsverkefna sem tengjast forvörnum ungmenna, líknarmálum, góðgerðarmálum, umhverfismálum og flugtengdum verkefnum. Sjóðnum bárust nærri 100 umsóknir vegna margvíslegra góðgerðarmálefna á liðnu ári og voru styrkir afhentir í aðalstöðvum Isavia á Reykjavíkurflugvelli sl. föstudag.

Eftirtaldir aðilar hlutu styrki Isavia að þessu sinni:

  • Félag heyrnarlausra til framleiðslu á fræðsluefninu Tinna táknmálsálfur - 350.000
  • Fræðsla og forvarnir til endurútgáfu bókarinnar Fíkniefni og forvarnir - 300.000
  • Átakið „Allir öruggir heim“ til kaupa á endurskinsvestum fyrir leikskólabörn - 490.000
  • Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til kaupa á EKG hjartalínuritstæki fyrir heilsugæslu - 485.000
  • Rauði krossinn á Íslandi til kaupa á búnaði til hjálparstarfa - 500.000
  • Barnaheill vegna átaksins Jólapeysan 2013 - 100.000
  • Blái herinn vegna umhverfishreinsunar - 150.000
  • Flugmálaútgáfan til útgáfu tímaritsins Flugið - 250.000
  • Heiðarholt – skammtímavistun til smíði á aðstöðu fyrir vistmenn - 300.000

Styður fjölda samfélagsverkefna

Auk ofangreindra samfélagsverkefna styður Styrktarsjóður Isavia Slysavarnafélagið Landsbjörgu sem hefur með höndum afar mikilvæga viðbragðsþjónustu vegna flugvalla Isavia um land allt.  Jafnframt styrkir félagið Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands vegna meistara- og doktorsverkefna og veitir aðstöðu fyrir söfnunarbauka góðgerðarfélaga í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli þar sem 2,5 - 3 milljónir króna söfnuðust á nýliðnu ári.

Isavia annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla ríkisins og stýrir flugumferð í íslenska flugstjórnarsvæðinu sem er eitt hið stærsta í heiminum. Um 650 manns starfa hjá félaginu auk 175 hjá dótturfélögunum Fríhöfninni og Tern Systems.