Hoppa yfir valmynd
19.4.2023
Jet2.com og Jet2CityBreaks bæta við þjónustuna á Íslandi næsta vetur

Jet2.com og Jet2CityBreaks bæta við þjónustuna á Íslandi næsta vetur

Breska flugfélagið Jet2.com og Jet2CityBreaks hafa tilkynnt um aukningu við flugáætlun sína til Íslands veturinn 2023-2024. Sætaframboð verður aukið um 36% og milli Keflavíkur annars vegar og Leeds Bradford-flugvallar og Newcastle hins vegar. Ástæðan er mikil eftirspurn eftir Íslandsferðum. Þá verður einnig áfram boðið upp á flug til og frá Birmingham, Manchester, Belfast, Edinborgar, East Midlands-flugvallar, Glasgow og London Stansted. 

Við áætlun Jet2.com og Jet2CityBreaks bætast því sjö nýjar vikulegar ferðir milli Keflavíkur og Leeds Bradford-flugvallar og sjö vikulegar ferðir milli Keflavíkur og Newcastle-flugvallar í febrúar og mars 2024. Þá bjóða félögin upp á ferðir milli Íslands og allra tíu starfsstöðva sinna í Bretlandi. 

Vetraráætlun Jet2.com og Jet2CityBreaks gerir ráð fyrir 150 ferðum milli Keflavíkur og flugvalla félaganna á Bretlandseyjum. Þrjátíu þúsund sæti verða í sölu og sætaframboðið þar með aukið um 36% samanborið við áætlun félaganna nú í vetur. 

„Við finnum áfram fyrir því að það er mikilli eftirspurn hjá okkar farþegum og ferðaskrifstofum eftir flugi og borgarferðum til Íslands þannig að við erum afar ánægð með að auka við áætlun okkar til að bregðast við því,“ segir Steve Heapy, forstjóri Jet2.com og Jet2holidays. „Við höfum byggt upp frábært samband við flugvöllinn, hótelrekendur og samstarfsaðila í ferðaþjónustunni og horfum með mikilli tiltrú til framtíðar.“ 

„Við á Keflavíkurflugvelli erum mjög ánægð að heyra af því að Jet2.com og Jet2CityBreaks hafi ákveðið að auka við þjónustu milli Íslands og Bretlands fyrir veturinn 2023 til 2024,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia. „Við erum afskaplega spennt að heyra af því að ástæða þessarar aukningar sé mikil eftirspurn eftir ferðum til Íslands. Við á Keflavíkurflugvelli hlökkum til að bjóða fleiri farþega félaganna velkomna og að gott samband okkar við Jet2.com og Jet2CityBreaks haldi áfram um ókomin ár.“