Hoppa yfir valmynd
15.1.2024
Júlí stærstur en flest flug í ágúst 2023

Júlí stærstur en flest flug í ágúst 2023

Það var líf og fjör á Keflavíkurflugvelli í desember því aðeins tvisvar sinnum áður hafa gestir flugvallarins verið fleiri í jólamánuðinum, árin 2017 og 2018. Flugvallarsamfélagið á KEF tók þá á móti samtals 519.239 gestum. Í mánuðinum flugu 18 flugfélög til 60 áfangastaða. Af þeim voru Lundúnir vinsælastar en þar á eftir komu Kaupmannahöfn, New York, Manchester og Boston.

Árið 2023 var það þriðja stærsta á KEF frá upphafi, en samtals voru gestir flugvallarins 7.750.091 og hafa ekki verið fleiri síðan 2018. Þetta er umtalsverð fjölgun á milli ára því gestum fjölgaði um 26,5% frá árinu 2022 þegar þeir voru 6.126.000. Hlutfall tengifarþega árið 2023 var 27,5%  samanborið við 25,1% árið á undan. 30. júlí var stærsti dagur ársins en þá tók flugvallarsamfélagið á móti 35 þúsund gestum á KEF. Í heildina flugu 28 flugfélög til 95 áfangastaða árið 2023.

Vinsælustu áfangastaðirnir 2023

Kaupmannahöfn og Lundúnir voru langvinsælustu áfangastaðir síðasta árs. Oftast var flogið til Kaupmannahafnarflugvallar en þrjú flugfélög fljúga þar á milli allan ársins hring. Lundúnir voru hins vegar sá áfangastaður sem oftast var flogið til en sjö flugfélög flugu þangað á fjóra flugvelli.

Flestir gestir frá Bandaríkjunum

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 2,2 milljónir árið 2023 samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu. Af þeim voru Bandaríkjamenn fjölmennastir eða um 28,3%  og þar á eftir komu Bretar sem vor um 12,5%. Erlendir ferðamenn voru tæplega hálfri milljón fleiri árið 2023 en árið 2022, sem er 31,1% fjölgun á milli ára. Erlendir ferðamenn hafa einu sinni áður mælst fleiri, árið 2018 þegar þeir voru rúmlega 2,3  milljónir.

Íslendingar á faraldsfæti

Brottfarir Íslendinga voru um 591 þúsund talsins árið 2023 eða um fjögur þúsund fleiri en árið 2022. Aukningin nemur 0,8% milli ára. Flestar brottfarir voru farnar í júlí en þá fóru tæplega 71 þúsund Íslendingar utan. Um er að ræða fjórða stærsta ferðaár Íslendinga þegar kemur að utanlandsferðum en brottfarir þeirra mældust um 619 þúsund árið 2017, 668 þúsund 2018 og 611 þúsund árið 2019.

Flest flug í ágúst

Flest farþegaflug voru 3. ágúst, þegar 215 farþegaflugvélar lentu eða tóku á loft á Keflavíkurflugvelli. Langflestar voru brottfarirnar í ágúst 2023, um 282 þúsund talsins, eða tæplega 39 þúsund fleiri en í ágúst 2022. Næstflestar voru þær í júlí 2023, um 275 þúsund eða um 41 þúsund fleiri en í sama mánuði 2022.

8.5 milljónir farþega 2024

Farþegaspá KEF 2024 gerir ráð fyrir að gestum flugvallarins muni fjölga á milli ára og verði tæplega 8,5 milljónir. Spáin gerir ráð fyrir að tæplega 2,4 milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins um flugvöllinn. Gangi spáin eftir verður árið 2024 það annað stærsta í sögu Keflavíkurflugvallar og það stærsta í komu erlendra ferðamanna til Íslands.