Hoppa yfir valmynd
23.3.2013
Keflavíkurflugvöllur - 70 ára sunnudaginn 24. mars 2012

Keflavíkurflugvöllur - 70 ára sunnudaginn 24. mars 2012

Sunnudaginn 24. mars eru liðin sjötíu ár frá því að Keflavíkurflugvöllur var formlega opnaður. Flugvöllurinn var gerður af Bandaríkjaher og gegndi mikilvægu hlutverki í síðari heimsstyrjöldinni. Hann varð eign Íslendinga að styrjöldinni lokinni og þjónaði sívaxandi flugumferð á flugleiðinni yfir Norður-Atlantshaf sem hófst á styrjaldarárunum. Bandaríkjamenn stóðu straum af kostnaði við rekstur flugvallarins um áratugaskeið og hann var aðalbækistöð bandaríska varnarliðsins á árunum 1951 – 2006. Íslendingar hófu ekki að nota flugvöllinn í eigin flugrekstri fyrr en á öndverðum sjöunda áratug síðustu aldar en þar stendur nú mjög blómlegur flugrekstur og miðstöð alþjóðaflugs milli Evrópu og Ameríku.

Við hernám Íslands vorið 1940 var enga flugvelli að finna í landinu. Breska hernámsliðinu lá á að koma á fót eftirliti úr lofti til varnar hugsanlegri innrás Þjóðverja og sendi breski flotinn strax sveit lítilla sjóflugvéla til landsins sem starfaði þar um sumarið. Sléttir og harðir bakkar Ölfusár í Kaldaðarnesi buðu upp á nánast eina hentuga flugvöllinn af náttúrunnar hendi í nágrenni Reykjavíkur en flestir herflugvellir til þess tíma voru grasi vaxnar grundir líkt og í Kaldaðarnesi. Sá hængur var þó á að flugvallarstæðið lá austan árinnar sem á það til að flæða þegar klakastíflur myndast í ánni á vetrum. Bretum var þetta vel ljóst en lá á og gerðu reyndar í fyrstu alls ekki ráð fyrir að stunda neitt flug á Íslandi yfir vetrarmánuðina. Flugstarfsemi hófst í Kaldaðarnesi um haustið en jafnframt var hafist handa við flugvallargerð í Reykjavík.

Síðari hluta ársins 1940 varð ljóst að þýski kafbátaflotinn léti ekki sitja við árásir á skip undan Bretlandsströndum og myndi færa athafnasvæði sitt vestar á Atlantshaf eftir því sem varnirnar styrktust. Flugvélar höfðu þegar sannað gildi sitt við varnir gegn kafbátum og því brýnt að koma upp aðstöðu fyrir stærri og öflugri eftirlitsflugvélar sem víðast, svo veita mætti skipalestum vernd lengra frá landi. Reykjavíkurflugvöllur var tilbúinn til notkunar sumarið 1941 um það bil er þýskir kafbátar fóru að herja á skipalestir suður af landinu. Þá var og hafist handa við að stækka flugvöllinn í Kaldaðarnesi. Báðir flugvellirnir voru þó einungis búnir einni flugbraut í fyrstu og voru því sléttaðir lendingarstaðir á nokkrum stöðum sem nota mátti í neyð. Einn slíkur neyðarflugvöllur var gerður á Garðskaga og voru það fyrstu flugvallarframkvæmdir á Suðurnesjum.

Bandaríkin hófu að styrkja herlið Breta hér á landi sumarið 1941 samkvæmt samningi við íslensk stjórnvöld með það fyrir augum að leysa breska herinn af hólmi. Bandaríkin voru ekki orðin þátttakendur í styrjöldinni en skyldu m.a. annast loftvarnir með orrustuflugvélum á Reykjavíkurflugvelli. Bandaríska herráðið ráðgerði að leggja stóran flugvöll fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar á suðvesturhorni landsins og annan minni fyrir orrustuflugsveitna sem allt of þröngt var um á Reykjavíkurflugvelli með öðrum flugsveitum sem þar höfðu aðsetur. Beindust augu Bandaríkjamanna strax að Suðurnesjum, enda Bretar þegar með vísi að flugvelli á Garðskaga og utanverður Reykjanesskaginn nánast hindrunarlaus til flugs.

Árás Japana á herstöðvar Bandaríkjanna á Hawaiieyjum 6. desember 1941 breytti gangi styrjaldarinnar og áætlunum Bandaríkjamanna. Stóru sprengju- og eftirlitsflugvélarnar sem áætlað var að senda til Íslands voru sendar til bækistöðva  við Kyrrahaf. Þörfin á stórum flugvelli af þessu tagi var þó enn fyrir hendi þótt á annan veg væri. Ljóst var að flytja þyrfti mikinn fjölda flugvéla frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu en Bretar höfðu fest kaup á fjölda flugvéla í Bandaríkjunum og Kanada og flogið mörgum þeirra yfir hafið með viðkomu á Reykjavíkurflugvelli.

Flugvöllum Bandaríkjahers var valinn staður upp af Njarðvíkurfitjum og á Háaleiti ofan  Keflavíkur. Bretar höfðu gert drög að stækkun varaflugvallarins á Garðskaga en þær mæltust ekki vel fyrir sökum skorts á landrými fyrir það risa mannvirki sem Bandaríkjaher hafði á teikniborðinu. Úrslitum um staðarvalið réð jökulgarðurinn á Háaleiti sem hafði að geyma heppileg jarðefni til fyllingar undir flugbrautirnar og ekki þótti hagkvæmt að flytja langan veg. Samdist svo um að íslenska ríkið útvegaði landrými fyrir flugvelli og tengda starfsemi sem skilað yrði aftur með öllum mannvirkjum til eignar að styrjöldinni lokinni.

Framkvæmdir hófust við lagningu flugvallarins upp af  Fitjum í febrúar 1942 og var verkið unnið af byggingarsveit flughersins ásamt u.þ.b. 100 íslenskum verkamönnum og vörubílstjórum. Íslensku starfsmennirnir hurfu á braut í júníbyrjun þegar nýjar reglur um hernaðaröryggi tóku gildi og bönnuðu alla umferð annarra en hermanna innan flugvallarsvæðisins. Skömmu áður hóf bandarískt verktakafyrirtæki framkvæmdir fyrir Bandaríkjaher hér á landi og tóku starfsmenn þess við af heimamönnum sem fengin voru verkefni á vegum hersins annars staðar. Illa gekk þó að fá hæfa bandaríska verkamenn til starfa á Íslandi og var gripið til þess ráðs að senda nýstofnaða byggingarsveit flotans til landsins sem tók við mannvirkjagerðinni ásamt byggingarsveitum hersins. Flugvöllurinn sem hlaut nafnið Patterson Field var tilbúinn til takmarkaðrar umferðar sumarið 1942 þegar flugvélum 8. flughersins bandaríska, sem hefja skyldu loftárásir á Þýskaland, var flogið til Bretlands með viðkomu á Grænlandi og Íslandi. Byggingarsveit flotans hóf lagningu flugvallarins á Háaleiti um sumarið og naut stuðnings fótgönguliðssveita sem skiptust á að leggja mannafla til til verksins. Alls störfuðu um 3.000 menn við flugvallargerðina þegar mest var og lauk verkinu árið eftir en vinna við Patterson lá niðri um veturinn. Bandaríkjamenn nefndu flugvöllinn á Háaleiti Meeks Field eftir ungum bandarískum orrustuflugmanni sem fórst í flugslysi á Reykjavíkurflugvelli 19. ágúst 1941 skömmu eftir komuna til landsins. Pattersonflugvöllur var að sama skapi nefndur eftir öðrum ungum flugmanni sem einnig lét lífið hér á landi nokkru síðar.

Meeksflugvöllur sem nú nefnist Keflavíkurflugvöllur var tekinn í notkun í apríl 1943 en smíði beggja flugvallanna og tilheyrandi mannvirkja var lokið þá um haustið. Alls risu 49 herskálahverfi á víð og dreif um flugvallarsvæðið og annarsstaðar á Suðurnesjum í tengslum við flugvellina og varnarviðbúnað sem fylgdi starfseminni.

Flugumferð var að mestu aðskilin á flugvöllunum við Keflavík. Um Meeksflugvöll fóru eingöngu ferju- og áætlunarvélar en auk þess fengu kafbátaleitarflugvélar breska flughersins af gerðinni B-24 Liberator sem aðsetur höfðu á Reykjavíkurflugvelli þar aðstöðu en Reykjavíkurflugvöllur var of lítill til þess að svo stórar flugvélar gætu athafnað sig þar full hlaðnar. Höfðu Bretar þann háttinn á að fljúga vélum sínum tómum til Keflavíkur og hlaða þær þar eldsneyti og djúpsprengjum áður en lagt var upp í leiðangur til varnar skipalestum sem tekið gátu 14 klukkustundir. Að flugi loknu var oft lent í Reykjavík. Bretar höfðu aðsetur í Camp Geck sunnan austur-vestur flugbrautarinnar gegnt flugstöð Leifs Eiríkssonar og var þar eina starfsemi þeirra á Keflavíkurflugvelli. Kaldaðarnesflugvöllur skemmdist í flóðum í mars 1943 og fluttu Bretar stórt flugskýli þaðan til Keflavíkurflugvallar um sumarið og reistu við Camp Geck. Bandaríkjafloti starfrækti einnig kafbátaleitarflugvélar hér á landi til ársloka 1943 en þær höfðu aðsetur á Reykjavíkurflugvelli.

Starfrækslu Pattersonflugvallar var hætt í stríðslok en almennt millilandaflug hófst þá um Meeksflugvöll.

Ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna undirrituðu samning haustið 1946 sem kvað á um um brottför Bandaríkjahers, sem þá taldi einungis um 1.000 menn sem störfuðu við rekstur Keflavíkurflugvallar. Samningnum sem jafnan er nefndur Keflavíkursamningurinn veitti Bandaríkjastjórn heimild til þess að nota flugvöllinn til millilendingar herflugvéla á leiðinni til og frá  Evrópu í tengslum við hersetuna í Þýskalandi. Flugvellirnir og önnur mannvirki urðu eign Íslendinga eins og til stóð en Bandaríkjastjórn stóð áfram straum af rekstrarkostnaði flugvallarins sem hlaut nafnið Keflavíkurflugvöllur.

Síðustu bandarísku hermennirnir héldu af landi brott 8. apríl 1947 og tók flugfélagið American Overseas Airlines við flugvallarrekstrinum og réð bandaríska og íslenska starfsmenn til verksins. Starfsemin var að flestu leyti sambærileg við það sem verið hafði á stríðsárunum, nema að nú var umferðin að miklu leyti evrópskar og bandarískar farþegaflugvélar sem millilentu þar ásamt bandarískum herflugvéum. Keflavíkursamningurinn kvað á um að Íslendingar skyldu þjálfaðir í sem flestum störfum við flugvallarreksturinn og var fljótlega ráðið í störf verka- og iðnaðarmanna og þjónustustörf af ýmsu tagi. Það var þó ekki fyrr en seint á árinu 1949 að Íslendingar hófu að vinna sérhæfð tæknistörf, t.d. við flugumferðarstjórn.

Sumarið 1948 tók bandaríska fyrirtækið Lockheed Overseas Aircraft Service við rekstri flugvallarins og annaðist hann til ársins 1951. Talsverðar endurbætur voru gerðar á flugvellinum og byggt yfir starfsemina á þessu tímabili. Eitt af þeim verkefnum var bygging flugstöðvar sem tekin var í notkun vorið 1949 en í húsinu var einnig hótelrekstur.

Við stofnun varnarliðsins vorið 1951 tók flutningadeild bandaríska flughersins við rekstri vallarins og hótelsins, en Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar annaðist afgreiðslu farþegaflugvéla sem leið áttu um flugvöllinn og aðra almenna flugþjónustu. Uppbygging mannvirkja varnarliðsins varð að mestu á svæðinu umhverfis flughlaðið og flugstöðina. Komu því strax fram hugmyndir um byggingu nýrrar flugstöðvar svo aðskilja mætti starfsemi borgaralega flugsins og hernaðarstarfsemina til aukins hernaðaröryggis og hagsbóta fyrir báða aðila. Ekkert varð þó af framkvæmdum fyrr en á öndverðum níunda áratugnum.

Í fyrstu önnuðust liðsmenn varnariðsins stjórn allra herflugvéla á flugvellinum en íslensku flugumferðarstjórarnir annarri flugumferð. Stóð sú skipan uns gerður var samningur við varnarliðið í júní 1955 sem meðal annars kvað á um að íslensk flugmálayfirvöld skyldu annast stjórn allra loftfara sem leið ættu um Keflavíkurflugvöll. Flugfélagið Loftleiðir flutti flugstarfsemi sína til Keflavíkurflugvallar árið 1962 og tveimur árum síðar tók það við rekstri flugafgreiðslunnar og þjónustu við almenna flugumferð um Keflavíkurflugvöll fyrir hönd íslenskra stjórnvalda undir yfirumsjón flugvallarstjórans á Keflavíkurflugvelli.

Um líkt leyti var rekstri flugvallarhótelsins hætt en hann hafði þá lengi verið að mestu í þágu varnarliðsins og herflugsins. Loftleiðir hf., og síðar Flugleiðir, ráku áfram flugstöðvarþjónustuna uns starfsemin var flutt í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem opnuð var vorið 1987. Með tilkomu nýju flugstöðvarinnar og flutningi viðhaldsdeildar Flugleiða úr flugskýli varnarliðsins komst loks á sá aðskilnaður frá athafnasvæði varnarliðsins sem stefnt hafði verið að frá upphafi. Varnarliðið hélt af landi brott haustið 2006 og tók Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar þá að fullu við rekstri flugvallarins. Flugmálastjórnin og Flugstöð Leifs Eiríkssonar mynduðu nýtt opinbert hlutafélag um reksturinn árið 2009 en það félag myndaði félagið Isavia með samruna við Flugstoðir ohf. árið 2010 og annast rekstur allra flugvalla og flugleiðsöguþjónustu landsins.

Keflavíkurflugvöllur var mikilvæg bækistöð Bandaríkjahers og NATO í kaldastríðinu og þar stóð um langa hríð háborg kafbátaleitar á Norður-Atlantshafi. Orrustuflugsveit varnarliðsins flaug þaðan í veg fyrir fleiri sovéskar herflugvélar en allar aðrar flugsveitir Bandaríkjahers samanlagt. Samtímis var þar rekin öflug starfsemi í almannaflugi og þar stóð vagga umsvifamikils alþjóðaflugs íslenskra flugfélaga sem staðið hefur með miklum blóma um áratugaskeið.

Isavia hyggst ekki halda upp á 70 ára vígsluafmæli Keflavíkurflugvallar í ár en stefnir að hátíðarhöldum árið 2016 þegar 70 ár verða liðin frá því að Íslendingar eignuðust flugvöllinn.

Ítarlega umfjöllun um tilurð og upphafsár Keflavíkurflugvallar er að finna í bókinni
Frá heimsstyrjöld til herverndar – Keflavíkurstöðin 1942 – 1951 eftir Friðþór Eydal en höfundur hennar vinnur nú að ritun sögu varnarliðsins og Keflavíkurflugvallar á árum kaldastríðsins.

George H. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi, opnaði Meeks Field formlega við hátíðlega athöfn 24. mars 1943. Viðstaddir athöfnina voru æðstu yfirmenn hers og flota ásamt sendiherra Bandaríkjanna og yfirmönnum breska flughersins.

Meeksflugvöllur var nefndur eftir lautinant George Everett Meeks sem fórst í flugslysi á Reykjavíkurflugvelli 27 ára að aldri, fyrstur rúmlega 200 Bandaríkjamanna sem létust á Íslandi á stríðsárunum. Meeks stundaði nám við háskóla Bandaríkjaflota í tvö ár en gekk síðan í bandaríska flugherinn og lauk flugþjálfun árið 1940. Hann kom til landsins með 33. orrustuflugsveitinni 6. ágúst 1941.

Liðsmenn byggingarsveita Bandaríkjahers ganga fylktu liði hjá heiðursverði á hersýningu við vígslu flugvallarins 24. mars 1943. Um 3.000 hermenn og 40 skriðdrekar tóku þátt í athöfninni.

Íslendingar við braggasmíði á Pattersonflugvelli sumarið 1942. Þrjár u.þ.b. 1,5 km langar flugbrautir voru lagðar í slakkanum handan við braggann.

Bandaríkjamenn beittu stórvirkum vinnuvélum við flugvallargerðina sem ekki höfðu fyrr sést í landinu. Malbikun flugbrauta á Meeksflugvelli hófst 23. september1942.

Flugskýli í smíðum á flughlaðinu austanvert í Háaleiti. Sökklar hússins voru steyptir í metersdjúpum snjó og hvassviðri tafði í tvær vikur að burðargrindin yrði reist. Skýlið var notað til smærri viðgerða á flugvélum sem leið áttu um flugvöllinn og var viðbyggingin notuð um tíma sem flugstöð. Flugskýlið hýsir nú flugþjónustudeild Keflavíkurflugvallar.

Dæmigert herskálahverfi á Keflavíkurflugvelli sumarið 1944. Camp Turner var aðsetur liðsveitar sem annaðist flugvallarreksturinn. Þar var síðar aðsetur flugvallarstjóra. Keflavík í baksýn.

Þúsundir herflugvéla fóru um Keflavíkurflugvöll til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu og til baka að henni lokinni. Hámarki náði umferðin um í júnímánuði 1944 þegar 1.050 flugvélar fóru um flugvöllinn. Þegar mest var höfðu 115 fjögurra hreyfla sprengjuflugvélar viðdvöl á flugvellinum á einum degi.

 

Liðsforingjar að snæðingi í veitingasal Hótel De Gink sem hýsti mörg fyrirmenni sem leið áttu um Keflavíkurflugvöll á stríðaárunum. Á veggnum er merki loftflutningadeildar Bandaríkjahers sem annaðist rekstur flugvallarins. Hote de Gink stóð ofan við Keflavík og hýsti löngu síðar íslenska starfsmenn varnarliðsins en eyðilagðist loks í bruna. 

Flugvellir Bandaríkjahers við Keflavík við verklok síðla árs 1943. Stærri völlurinn ­ Meeks Field­ síðar Keflavíkurflugvöllur þjónaði millilandaflugi og þar gat fjöldi flugvéla haft viðdvöl í einu. Flugvöllurinn hefur verið stækkaður verulega á undanförnum 70 árum. Minni flugvöllurinn,­ Patterson Field ­var aðsetur orrustuflugvéla sem önnuðust loftvarnir. Á flugvallarsvæðinu risu alls 43 herskálahverfi sem hýst gátu 10.000 manns auk flugskýla, eldsneytistanka og annarra mannvirkja sem tengdust starfseminni.

 

Keflavíkurflugvöllur í stríðslok. Flugbrautirnar fjórar voru um 2 km að lengd hver um sig og akstursbrautir tengdu brautarenda saman í hring.

Flugafgreiðsla á Keflavíkurflugvelli var í bráðabirgðahúsnæði þar til ný flugstöð var tekin í notkun vorið 1949.

Afgreiðslumenn Hins íslenska steinolíufélags á Keflavíkurflugvelli (síðar Olíufélag Íslands) setja eldsneyti á flugvél bandaríska flugfélagsins TWA. Dæluvagn sýgur eldsneytið úr tengibrunni og skilar því á tanka flugvélarinnar. Slíkt kerfi var byltingarkennd nýjung og hið eina sinnar tegundar í Evrópu er það var tekið í notkun í ársbyrjun 1950. Knútur Höiriis stöðvarstjóri H.Í.S. og Olíufélagsins hf. á Keflavíkurflugveli 1947–1993 stendur við flugvélarhreyfilinn lengst til hægri á myndinni. (Úr safni Knúts Höiriis)

Sumarkvöld á Keflavíkurflugvelli á fimmta áratug síðustu aldar. Farþegar ganga frá borði Skymaster-flugvélar bandaríska flugfélagsins Seaboard and Western við flugstöðina. (Úr safni Knúts Höiriis)