Hoppa yfir valmynd
4.7.2023
Keflavíkurflugvöllur einn best tengdi flugvöllurinn í sínum stærðarflokki

Keflavíkurflugvöllur einn best tengdi flugvöllurinn í sínum stærðarflokki

Keflavíkurflugvöllur er í ellefta sæti í sínum stærðarflokki á lista Evrópusamtaka flugvalla (ACI Europe) yfir gæði tenginga. Athygli vekur að Keflavíkurflugvöllur er ofar á þessum lista en Ósló flugvöllur og Arlanda í Stokkhólmi.

ACI gefur á hverju ári út skýrslu um tengingar flugvalla og gæði þeirra, en ýmsir þættir eru teknir saman í heildareinkunn flugvallanna. Keflavíkurflugvöllur fær mjög góða einkunn sem tengistöð (e. hub), og er þar með efstu flugvöllum í sínum stærðarflokki.

Þegar reiknuð er út einkunn fyrir tengistöð er aðallega skoðað hversu mörg tengiflug er hægt að komast í frá viðkomandi flugvelli, gæði tenginganna og biðtími.

Það er einnig áhugavert að sjá hvað margir flugvellir eiga enn eftir að vinna upp það tap í tengingum sem varð í Covid-19 faraldrinum, en Keflavíkurflugvöllur er nánast kominn á sama stað og hann var árið 2019.

Stefna Isavia er að vinna með okkar viðskiptafélögum að því að veita viðskiptavinum skilvirka og góða þjónustu. Við rekum skilvirka og samkeppnishæfa tengistöð með skýrum og mælanlegum þjónustuviðmiðum og ætlum okkur að fjölga flugtengingum. Það er ánægjulegt að fá viðurkenningu á árangrinum með þessum hætti.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.