Hoppa yfir valmynd
17.2.2022
Keflavíkurflugvöllur fær viðurkenningu fyrir að hlýða á raddir viðskiptavina

Keflavíkurflugvöllur fær viðurkenningu fyrir að hlýða á raddir viðskiptavina

Keflavíkurflugvöllur var á dögunum í hópi um 200 flugvalla í heiminum sem fengu viðurkenningu Alþjóðasamtaka flugvalla (Airports Council International – ACI) fyrir að leggja áherslu á að hlusta á og eiga í samskiptum við viðskiptavini sína.

Viðurkenningin, sem nefnd er Voice of the Customer eða Rödd viðskiptavinarins, var fyrst afhent í fyrra og þá hlaut Keflavíkurflugvöllur hana einnig. Tilefni verðlaunanna kom til vegna  Covid-19 heimsfaraldursins og er þeim ætlað að vekja athygli á því hvaða flugvellir eru  að hlusta á viðskiptavini sína og þarfir þeirra þrátt fyrir breytta heimsmynd. Flugvellirnir fá viðurkenningu m.a. fyrir að upplýsa farþega um reglur og sóttvarnir sem eru í gildi hverju sinni.

Þeir flugvellir sem hér um ræðir hafa aflað upplýsinga frá farþegum og viðskiptavinum í gegnum þjónustukönnun sem gerð er meðal brottfararfarþega og  nefnist „Airport Service Quality“ (ASQ). Þessi könnun er gerð á yfir 300  flugvöllum um allan heim þar sem spurt er um ánægju farþega með þjónustu á flugvöllum. Keflavíkurflugvöllur hefur náð góðum árangri í þessum könnunum á síðustu árum og hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir sína þjónustu.