Hoppa yfir valmynd
26.6.2019
Keflavíkurflugvöllur hætti kolefnislosun í starfsemi sinni fyrir 2050

Keflavíkurflugvöllur hætti kolefnislosun í starfsemi sinni fyrir 2050

Á 29. ársþingi ACI EUROPE, evrópudeildar Alþjóðasamtaka flugvalla, á Kýpur í morgun skrifaði Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, undir skuldbindingu um að Keflavíkurflugvöllur muni hætta allri kolefnislosun í beinni starfsemi sinni í síðasta lagi árið 2050.

Þessi yfirlýsing var gefin út samfara því að ACI EUROPE tilkynntu um NetZero 2050-skuldbindingu rekstraraðila flugvalla með formlegum hætti. Hún felur í sér að flugvellirnir hætta kolefnislosun í sinni starfsemi í síðasta lagi árið 2050. Þessi sameiginlega skuldbinding, sem undirrituð var af 194 flugvöllum sem reknir eru af 40 rekstraraðilum í 24 löndum, er stórt skref í baráttu flugvalla gegn loftslagsbreytingum.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia: „Við á Keflavíkurflugvelli styðjum þessa yfirlýsingu. Með undirritun hennar lýsum við yfir ásetningi okkar í umhverfismálum með ótvíræðum hætti. Við höfum unnið markvisst að því að minnka kolefnaútblástur okkar síðan árið 2015 og höfum lokið við annað stig af fjórum í innleiðingu á kolefnisvottun ACA (Airport Carbon Accreditation). Það þýðir að við höfum kortlagt kolefnisspor okkar, gripið til aðgerða til að minnka kolefnislosun og sett markmið í þeim efnum.“

„Við höfum kynnt okkur nýja skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og erum meðvituð um breytt viðhorf til loftferða,“ segir Sveinbjörn. „Almenningur gerir meiri kröfur um metnaðarfullar aðgerðir stjórnvalda, fyrirtækja og þeirra sem bjóða upp á samgöngur og viljum við bregðast við því. NetZero2050 er ekki léttvæg yfirlýsing. Við erum sannfærð um að með rannsóknum, fjárfestingum, samnýtingu þekkingar og samstarfi getum við fundið bestu lausnirnar til að ná þessu metnaðarfulla markmiði.“

Dr. Michael Kerkloh, forseti ACI EUROPE og framkvæmdastjóri flugvallarins í München: „Flugvellir í Evrópu hafa verið í fararbroddi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum með minni útblæstri á hverju einasta ári undanfarinn áratug. Af þeim hafa 43 þeirra reyndar þegar náð fram kolefnishlutleysi samkvæmt ACA. Skuldbindingin sem skrifað er undir í dag bætir nýrri vídd við og gengur lengra en kolefnisjöfnun. Það sem mestu máli skiptir er að með NetZero2050-skuldbindingunni eru flugvellir að samstilla sig við Parísarsamkomulagið og hið nýja loftslagsmarkmið sem Evrópusambandið setti sér í síðustu viku.

Patricia Espinosa, framkvæmdastjóri UNFCCC (Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar): „Í skýrslu IPCC (Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar) frá því í október síðastliðnum er lögð áhersla á mikilvægi þess að hætta losun gróðurhúsalofttegunda fyrir miðja öldina. Allir geirar í samfélaginu þurfi að vinna saman að þessu endanlega markmiði. Það er því hvetjandi að sjá fyrirtæki í flugvallarekstri setja markið hærra og við hlökkum til að vinna með þessu mikilvæga geira.“

Fresturinn til ársins 2050 er í samræmi við nýjustu gögn IPCC og þá stefnu framkvæmdastjórnar ESB sem tekin var upp af ráðherraráði Evrópusambandsins, um að þróa notkun orkugjafa í átt að lægra hlutfalli kolefna (decarbonization).

Til að lesa yfirlýsinguna í heild sinni og sjá lista yfir flugvelli og flugvallarekendur sem taka þátt í verkefninu má smella hér.