Hoppa yfir valmynd
11.3.2024
Keflavíkurflugvöllur hlýtur alþjóðleg þjónustuverðlaun sjötta árið í röð

Keflavíkurflugvöllur hlýtur alþjóðleg þjónustuverðlaun sjötta árið í röð

Alþjóðasamtök flugvalla (ACI) hafa sjötta árið í röð verlaunað Keflavíkurflugvöll fyrir þjónustugæði. Þetta er niðurstaða alþjóðlegrar þjónustukönnunar á vegum ACI sem gerð er ár hvert á um 400 flugvöllum um allan heim. Keflavíkurflugvöllur er í hópi bestu flugvalla í Evrópu í sínum stærðarflokki, 5-15 milljónir farþega á ári, þegar kemur að þjónustugæðum.

Keflavíkurflugvöllur hefur tekið þátt í þjónustukönnuninni, Airport Service Quality Programme (ASQ), í nærri tvo áratugi og hefur völlurinn hlotið þessa viðurkenningu ríflega tíu sinnum og nú sjötta árið í röð. ASQ þjónustukönnunin er virtasta og marktækasta mæling sem gerð er á þjónustugæðum flugvalla.

„Við erum afskaplega stolt af þessari viðurkenningu,” segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia. „Það er sérstaklega ánægjulegt að fá þessa viðurkenningu fyrir árið í fyrra á sama tíma og við á Keflavíkurflugvelli stöndum í miklum framkvæmdum og breytingum sem mátti gera ráð fyrir að hefðu einhver áhrif á upplifun farþega.”

Keflavíkurflugvöllur er einn af þeim átta evrópsku flugvöllum í sínum flokki sem fá hæstu meðaleinkunn í könnuninni og fær því þessa viðurkenningu. Aðrir flugvellir sem fengu viðurkenningu í sama flokki eru Róm Ciampino flugvöllur á Ítalíu, Nikola Tesla flugvöllur í Belgrad í Serbíu, Izmir Adnan Menderes flugvöllur í Izmir í Tyrklandi, Linate flugvöllur í Mílanó á Ítalíu, Alþjóðaflugvöllurinn á Möltu, Porto flugvöllur í Portúgal og  Þessalóníku flugvöllur í Grikklandi.

„Það er sameiginlegt átak allra á Keflavíkurflugvelli, með metnað fyrir þjónustu við okkar viðskiptavini að leiðarljósi, sem hefur skilað okkur þessum árangri” segir Guðmundur Daði. „Flugvallarsamfélagið allt hefur unnið þrekvirki því  völlurinn er metinn út frá allri starfseminni sem þar fer fram. Þetta hefur verið samhent vinna hjá öllum sem starfa á Keflavíkurflugvelli, hvort sem það er starfsfólk Isavia, flugafgreiðsluaðila, rekstraraðilar veitingastaða, verslana, flugfélaga, rútufyrirtækja og bílaleiga, lögreglu eða tolls svo einhverjir í samfélaginu á Keflavíkurflugvelli séu nefndir.”

„Við hjá ACI fögnum því að í fyrra hafi flugvöllum í ASQ verkefninu fjölgað og þeir orðið fleiri en fjögur hundruð sem er met,“ segir Luis Felipe de Oliveira, framkvæmdastjóri ACI World. „Þetta sýnir enn frekar að aðildarflugvellir okkar hafa skuldbundið sig til að setja farþegana í fyrsta sæti. Við hjá ACI viljum einnig þakka gestum okkar fyrir að hafa gefið sér tíma til að veita umsögn í tæplega 600.000 könnunum. Nú þegar væntingar farþega eru að þróast hratt er það ekki bara takmark að tyggja framúrskarandi þjónustu heldur er það lykilatriði svo flugvellir séu ekki bara gátt heldur eftirminnilegir áfangastaðir í sjálfu sér.“

ACI tilkynnti um niðurstöðurnar í dag en verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á þjónusturáðstefnu samtakanna í Atlanta í Bandaríkjunum í september.