Hoppa yfir valmynd
20.2.2014
Keflavíkurflugvöllur meðal bestu flugvalla í Evrópu

Keflavíkurflugvöllur meðal bestu flugvalla í Evrópu

Alþjóðasamtök flugvalla, Airports Council International (ACI), kynntu í gær, 19. febrúar, niðurstöðu árlegrar þjónustukönnunar samtakanna á 285 alþjóðaflugvöllum um allan heim. Þjónustumælingin er gerð ársfjórðungslega meðal flugfarþega og gefur heildarmynd af gæðum þjónustu í flugstöðinni frá því farþegar eru innritaðir og þar til þeir ganga um borð í flugvél. Alls eru mældir 34 lykilþættir í þjónustu sem flugfarþegar njóta.
 
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er Keflavíkurflugvöllur í fjórða sæti yfir bestu flugvelli í Evrópu árið 2013. Niðurstaðan er mjög ánægjuleg þar sem flugvöllurinn keppir við marga af stærstu flugvöllum heims. Einungis flugvellirnir í Moskvu (Sheremetyevo), Zurich og Porto fengu hærri einkunn fyrir þjónustu.
 
Keflavíkurflugvöllur hefur tvívegis hlotið verðlaun fyrir að veita bestu þjónustuna, árið 2009 sem besti flugvöllur í Evrópu og árið 2011 sem besti flugvöllur í Evrópu í flokki flugvalla með undir tveimur milljónum farþega.  
 
Farþegafjölgun hefur orðið afar hröð á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár. Á síðasta ári fóru rúmlega 2,8 milljónir farþega um flugvöllinn eða 15,6% fleiri en árið 2012 og áætlað er að aukningin verði um 18% í ár. Að halda þjónustu í hæsta gæðaflokki er krefjandi verkefni, sérstaklega samfara svona hraðri aukningu. Árangurinn byggist á góðri samvinnu flugvallarrekanda, þjónustuaðila í flugstöðinni, flugrekenda, flugþjónustuaðila og allra þeirra sem koma að svo umfangsmikilli þjónustu sem veitt er á Keflavíkurflugvelli.