Hoppa yfir valmynd
20.5.2011
Kynning á skipulagsreglum fyrir Akureyrarflugvöll

Kynning á skipulagsreglum fyrir Akureyrarflugvöll

Innanríkisráðuneytið auglýsir kynningu á skipulagsreglum fyrir Akureyrarflugvöll.

Í samræmi við heimild í 59. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum, hefur innanríkisráðherra ákveðið að setja skipulagsreglur fyrir Akureyrarflugvöll. Reglurnar hafa m.a. að geyma fyrirmæli um starfsemi og starfsheimildir innan flugvallarins, reglur um hindranafleti í nágrenni flugvallarins og á aðflugs- og fráflugsleiðum að flugvellinum auk reglna um notkun sýnilegra lasergeisla sem nauðsynlegar eru vegna öryggis flugvallarstarfseminnar. Hindranafletirnir hafa í för með sér hæðartakmarkanir á byggingum og öðrum mannvirkjum á áhrifasvæði vallarins sem nær til Akureyrarbæjar og sveitarfélaganna í nágrenni Akureyrar. Drög að reglunum hafa verið kynnt fulltrúum allra sveitarfélaga í nágrenni vallarins.

Tilgangur og markmið reglnanna er:
marka skýra og gagnsæja stefnu um leyfða starfsemi innan flugvallarins,
að tryggja flugöryggi vallarins með því að binda í skipulag hæðartakmarkanir sem nauðsynlegar eru vegna öryggis flugvallarstarfseminnar, og reglur um notkun sýnilegra lasergeisla sem nauðsynlegar eru vegna öryggis flugvallarstarfseminnar,
að einfalda umfjöllun og ákvarðanatöku um starfsemi innan vallarins og hæðir húsa innan og í nágrenni flugvallarins.

Með reglunum er verið að setja nánari reglur um starfsemi innan flugvallarins en gert er í deiliskipulagiÞá er verið að festa í sessi með skipulagi hindranafleti vallarins, þ.e. takmarkanir á hæðum húsa á tilteknum svæðum, sem unnið hefur verið eftir hingað til. Eru hindranafletir þessir byggðir á skilgreiningum alþjóðlegra skuldbindinga svo sem Chicago samningnum, lögum um loftferðir nr. 60/1998, með síðari breytingum, og reglugerð um flugvelli nr. 464/2007.

Tillaga að skipulagsreglum fyrir Akureyrarflugvöll er hér með auglýst til kynningar en tillagan er til sýnis í flugstöðinni á Akureyrarflugvelli frá og með 23. maí 2011 til og með 20. júní. Hægt er að nálgast tillöguna á heimasíðu Innanríkisráðuneytisins, heimasíðu Flugmálastjórnar Íslands, og heimasíðu Isavia ohf.

Skorað er á fasteignaeigendur á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu og aðra hagsmunaaðila að kynna sér fyrirliggjandi drög að reglum. Athugasemdir eða ábendingar við tillöguna skulu vera skriflegar og berast innanríkisráðuneytinu, Sölvhólsgötu 7 - 150 Reykjavík, ekki seinna en 21. júní 2011. Eftir þann tíma verður ekki tekið við athugasemdum. Litið er svo á að þeir sem gera ekki athugasemdir við tillöguna teljist samþykkir henni.

Eftir kynningartíma verða athugasemdir og ábendingar sem berast teknar til ítarlegrar athugunar. Verði ákveðið að ráðast í breytingar á tillögunni vegna athugasemdanna verða slíkar breytingar kynntar hlutaðeigandi áður en gengið verður endanlega frá reglunum. Auglýsing um gildistöku reglnanna verður birt í Lögbirtingablaðinu. Nánari upplýsingar veitir Hermann Hermannsson hjá Isavia ohf., netfang: [email protected], S : 424-4100.