Hoppa yfir valmynd
14.11.2018
KYNNINGARFUNDUR UM STARTUP TOURISM

KYNNINGARFUNDUR UM STARTUP TOURISM

Fyrir skömmu var haldinn vel sóttur kynningarfundur í Reykjanesbæ þar sem umræðuefnið var Startup Tourism viðskiptahraðallinn. Hann hefst 14. janúar næstkomandi og fresturinn til að sækja um þátttöku í honum er til 3. desember á startuptourism.is

Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall sem er sérsniðinn að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu. Verkefninu er ætlað að veita þeim faglega undirstöðu og hraða ferlinu frá því að hugmynd fæðist þar til viðskipti taka að blómstra.

Tíu fyrirtæki verða valin inn og fá þau leiðsögn og þjálfun yfir tíu vikna tímabil ásamt skrifstofuaðstöðu í húsi Íslenska Ferðaklasans. Þar munu þátttakendur njóta ráðgjafar reyndra frumkvöðla, fjárfesta og lykilaðila innan ferðaþjónustunnar í þeim tilgangi að hraða þróun viðskiptahugmynda sinna og koma þeim á legg. 

Óskað er eftir viðskiptahugmyndum sem hafa það að leiðarljósi að fjölga afþreyingarmöguleikum í ferðaþjónustu á Íslandi, styrkja innviði greinarinnar og stuðla að dreifingu ferðamanna um allt land, allan ársins hring. 

Isavia hefur verið stoltur bakhjarl Startup Tourism frá upphafi og voru áhugasamir hvattir til að mæta á kynningarfundinn í Reykjanesbæ sem haldinn var 6. nóvember síðastlinn. Þar var rætt um ýmsar hugmyndir tengdar viðskiptahraðlinum.

Icelandic Startups kynnti viðskiptahraðalinn Startup Tourism. Gunnar Kr. Sigurðsson, markaðsstjóri Isavia, fór yfir markaðssetningu Keflavíkurflugvallar og farþegaþróun og eigendur veitingastaðarins Hjá Höllu kynntu frumkvöðlastarf sitt – en þau hafa nýlega opnað veitingastað á Keflavíkurflugvelli.