Hoppa yfir valmynd
4.10.2018
LÆRDÓMSRÍK FLUGSLYSAÆFING Á EGILSSTÖÐUM

LÆRDÓMSRÍK FLUGSLYSAÆFING Á EGILSSTÖÐUM

Um það bil 200 manns tóku þátt í flugslysaæfingu sem haldin var á Egilsstöðum í lok september. Æfingin var sú síðasta af þeim þremur sem haldnar voru á þessu ári. Fyrri æfingar í ár voru haldnar á Bíldudal og Húsavík. Á næsta ári verða æfingar á Gjögri, í Grímsey og á Hornafirði. Nærri 50 flugslysaæfingar hafa verið haldnar af Isavia og samstarfsaðilum síðan árið 2000.

Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia, stýrði æfingunni á Egilsstöðum en hún var haldin af Isavia og Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra. Elva segir að æfingin hafi gengið vel. Greiðlega hafi gengið að fá sjálfboðaliða til að leika særða á vettvangi, en meðalaldur hópsins hafi verið lægri en vanalega. Það hafi þó ekki haft nein áhrif, hópurinn hafi staðið sig frábærlega og eigi miklar þakkir skildar.

„Það mátti draga heilmikinn lærdóm af æfingunni. Æfingin er haldin fyrir starfsfólk flugvalla, björgunarsveitir, heilbrigðisstarfsfólk, lögreglu, slökkvilið, sjálfboðaliða Rauða krossins og fleiri sem að þessum málum koma,“ segir Elva. „Miklu skiptir að þessi hópur sé samtaka og það var ánægjulegt að sjá hversu sterk og góð liðsheildin var orðin í lokinn.“

Æfingin á Egilsstaðaflugvelli og nágrenni stóð frá fimmtudeginum 27. september til og með laugardeginum 29. september. Á fimmtudagskvöldinu var æft hvernig brugðist yrði við því að flugvél hrapaði niður í Lagarfljót og var leitað þar í myrkri. Á föstudeginum var haldin svokölluð skrifborðsæfing aðgerðarstjórnar auk þess sem boðið var upp á fyrirlestra, en fyrirlestrar voru einnig í boð á fimmtudeginum. Á laugardeginum voru svo æfð viðbrögð við flugslysi á Egilsstaðaflugvelli.