Hoppa yfir valmynd
11.3.2024
Loksins Café & Bar opnaður í nýrri mynd á Keflavíkurflugvelli

Loksins Café & Bar opnaður í nýrri mynd á Keflavíkurflugvelli

Loksins Bar á Keflavíkurflugvelli gengur í endurnýjun lífdaga en nýr og stærri Loksins Café & Bar hefur verið opnaður í suðurbyggingu vallarins. Loksins Café & Bar býður upp á breiðara vöruúrval í bæði mat og drykk í glæsilegu nýju rými hönnuðu af HAF Studio.

Auk þess að bjóða upp á gott úrval drykkja líkt og gestir flugvallarins hafa notið síðustu ár, býður Loksins Café & Bar bjóða upp á fjölbreyttan matseðil með nýbökuðu handgerðu bakkelsi, morgunverðarskálum, salötum, fersku ciabatta og girnilegum heitum réttum.

Íslensk hráefni í aðalhlutverki

Yfirmatreiðslumaður Loksins Café & Bar, Semjon Karopka, hefur margra ára reynslu úr veitingageiranum á Íslandi. Hann er meðal annars eigandi og yfirkokkur á veitingastöðunum Pronto Pasta í Borg29 mathöll og Hipstur í Gróðurhúsinu í Hveragerði.

„Það hefur verið tilhlökkunarefni að opna Loksins Café & Bar aftur á flugvellinum í nýrri mynd og ég er mjög stoltur af þeim matseðli sem við bjóðum gestum flugvallarins upp á. Lögð er áhersla á íslenskt hráefni og við höfum verið að þróa nýja rétti og bjóðum upp á girnilegt úrval í bæði mat og drykk þannig að allir ættu að geta fengið eitthvað við sitt hæfi. Við erum með frábært framboð af góðum morgunverðarréttum, íslensku bakkelsi og allskonar smáréttum sem kitla bragðlaukana og passa vel við Loksins Café & Bar stemninguna frá morgni til kvölds,“ segir Semjon.

Mikið lagt upp úr hönnun

Nýr Loksins Café & Bar er meira afmarkaður en áður fyrir betri hljóðvist og stemningu en HAF Studio á veg og vanda að hönnun staðarins. Loksins Bar opnaði fyrst árið 2015 á Keflavíkurflugvelli og var hannaður af HAF Studio í samstarfi við Hjalta Karlsson og hönnunarstofu hans Karlssonwilker. Við hönnun staðarins var upphaflega hugmyndin að endurskapa alvöru reykvíska barstemningu og kynna ýmsar íslenskar hefðir í mat, drykk og menningu fyrir erlendum ferðamönnum.

Á nýjum og stærri Loksins Café & Bar er öll hönnun byggð á þessum grunni. Barinn státar af einu besta útsýninu á flugvellinum þar sem langhlið staðarins vísar út á flugbrautina til suðurs. Við inngang staðarins er skeifulaga bar sem skiptir staðnum í tvö svæði; annað hugsað sem hefðbundið kaffihús en hitt sem ölstofa.

„Við erum virkilega ánægð og stolt að Loksins Bar öðlist framhaldslíf á nýjum og betri stað sem Loksins Café & Bar. Það er klárt mál að þetta verður fyrsta stopp upp á velli í næstu utanlandsferð,“ segir Hafsteinn Júlíusson, eigandi HAF Studio.

Í efnisvali var áhersla lögð á hlýleika, fáguð efni og litapallettu í grænum tónum sem hefur róandi áhrif og umlykur gesti með hlýju. Öll húsgögn og innréttingar á staðnum eru íslensk hönnun. Á veggjum staðarins er áfram myndefni frá Karlssonwilker og bætast við sérhönnuð verk frá Hugleiki Dagssyni, sem endurspegla íslenska dægurmenningu og er ætlað að vekja samtal milli gesta staðarins, bæði erlendra og íslenskra.

Bætt upplifun gesta

Ný staðsetning Loksins Café & Bar er við C-hliðin á flugvellinum, í næsta nágrenni við veitingastaðinn Hjá Höllu.

„Loksins höfum við opnað Loksins Café & Bar aftur og núna á mun stærra svæði í fallegu og björtu rými í suðurbyggingu flugvallarins. HAF Studio hefur hugsað út í hvert smáatriði til að skapa huggulegt rými fyrir gesti til að upplifa sannkallaða íslenska miðborgarstemningu,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga á Keflavíkurflugvelli. „Við erum stöðugt að betrumbæta upplifun gesta flugvallarins. Loksins Café & Bar er skyldustopp margra gesta okkar og við höfum sannarlega fundið fyrir söknuði gesta á Loksins. Það gleður okkur því að geta nú aftur boðið upp á þennan góða viðkomustað, nú í stærri og bættri mynd.“

Fyrir gesti sem eru á hraðferð býður Loksins Café & Bar gestum upp á gott úrval tilbúinna rétta og drykkja í kæli hjá sjálfsafgreiðslukassa sem er opinn allan sólahringinn.