Hoppa yfir valmynd
8.5.2024
Loksins og Bakað buðu í teiti á Keflavíkurflugvelli

Loksins og Bakað buðu í teiti á Keflavíkurflugvelli

Veitingastaðirnir Loksins Café & Bar og Bakað opnuðu nýlega veitingastaði á Keflavíkurflugvelli (KEF). Af því tilefni var öllu tjaldað til og boðið í teiti þar sem léttar veigar voru í boði fyrir góðan hóp gesta. Greinilegt var af andrúmsloftinu að vorið er loksins (!) komið og það var létt yfir gestum, sem skemmtu sér vel og fögnuðu saman nýjungum af ýmsu tagi.

Loksins Café & Bar opnaði nýverið í stærri stað í suðurbyggingu flugvallarins. Til viðbótar við gott úrval drykkja býður Loksins Café & Bar upp á fjölbreyttan matseðil með nýbökuðu handgerðu bakkelsi, morgunverðarskálum, salötum, fersku ciabatta og girnilegum heitum réttum.

Bakað handverksbakarí hefur opnað á tveimur stöðum í KEF og þar sér Gústi bakari um vöruúrvalið. Á Bakað er meðal annars boðið upp á samlokur, pizzur, heilsusamlega safa, salöt, gómsætt bakkelsi og rjúkandi heitt gæðakaffi frá Te & kaffi.

„Við erum stöðugt að betrumbæta upplifun gesta flugvallarins, meðal annars með því að bæta við og uppfæra veitingastaði á vellinum. Loksins og Bakað hafa svo sannarlega slegið í gegn meðal gesta og það var ánægjulegt að fá að fagna með þeim. Það er svo margt á dagskrá hjá okkur fyrir næstu mánuði og misseri og við hlökkum til að kynna þær nýjungar fyrir gestum þegar þar að kemur,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga hjá Isavia.

„Það er búið að vera mjög gaman að opna aftur Loksins Café & Bar og sjá viðbrögð gesta við nýja matseðlinum. Það er alltaf ákveðin áskorun að hrista upp í einhverju sem fólk hefur þekkt mjög lengi, en nýju réttirnir og úrvalið í mat og drykk eru greinilega að höfða til gesta, eins og við vonuðumst til. Þá tökum við líka eftir því að gestir kunna að meta þá áherslu sem við leggjum á íslenskt hráefni. Síðustu mánuðir hafa verið virkilega skemmtilegir, en núna hefst gamanið fyrir alvöru með sumartraffíkinni!“ segir Semjon Karopka, yfirmatreiðslumaður Loksins Café & Bar.

Staðir Loksins og Bakað eru hannaðir af HAF Studio, en hönnunarstofan hefur undanfarin ár komið að hönnun fjölmargra veitingastaða og mathalla. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var vel mætt í boðið en DJ Danni Deluxe hélt uppi stemningunni með ljúfum tónum.