Hoppa yfir valmynd
19.9.2018
MENNINGARDAGAR Á EGILSSTAÐAFLUGVELLI

MENNINGARDAGAR Á EGILSSTAÐAFLUGVELLI

Föstudaginn 21. september næstkomandi kl. 16 verður opnuð sýning á 23 nýjum olíumálverkum eftir Tolla í flugstöðinni á Egilsstöðum. Sýningin er í boði Isavia, rekstraraðila flugvallarins.

Þetta er fyrsta sýning af nokkrum á verkum Tolla sem settar verða upp á innanlandsflugvöllu á Íslandi á komandi mánuðum.

„Á síðasta ári kom ég að máli við Isavia með þá hugmynd að nýta húsakostinn á flugstöðum landsins til sýningarhalds þar sem þarna væri gott veggjaplás , hátt til lofts og vítt til veggja,“ segir Tolli. „Lýsing í flugstöðunum er iðulega góð og mikið rennsli af fólki í gegnum húsinn. Var tekið vel í þessa hugmynd af forráðamönnum Isavia og þegar ráðist í að framkvæma þetta.“

Tolli segir að sýningar hans á flugvöllunum verði vonandi bara þær fyrstu af mörgum, en meiningin sé að nota aðstöðuna til að styðja við ungt listafólk og gera því kleift að sýna verk sín í flugstöðunum. Þannig verði hægt að kanna grundvöll þess að nýta flughafnirnar sem menningarhús.

Olíuverkin sem sýnd verða á Egilsstöðum eru öll ný af nálinni, bæði stór og smá eftir því sem húsrúm leyfir og verða öll verkin til sölu.

Laugardaginn 22. september kl. 11 býður síðan Hjörvar Steinn Grétarsson skákmeistari til fjölteflis í flugstöðinni á Egilsstöðum. Þeir sem ná jafntefli eða vinna fá vinninga, auk þess sem þrenn aukaverðlaun verða dregin út.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á [email protected] í síðasta lagi föstudagskvöldið 21. september. Einnig verður hægt að skrá sig á staðnum kl. 10.45 ef enn verða laus sæti.