Hoppa yfir valmynd
9.5.2010

Metdagur í flugumferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá var flugumferðin á íslenska flugstjórnarsvæðinu óvenjulega mikil, í nótt hélt umferðin áfram að vera mikil og má búast vð að svipuðum degi í dag.  Alls 758 flugvélar komu inn á svæðið í gær, það er langt yfir þeim tölum sem Isavia (áður Flugstoðir) hafa áður séð.

Umferðin skiptist þannig að 438 flugvélar flugu frá Evrópu til Norður Ameríku en 320 flugvélar frá Norður Ameriku til Evrópu. Þessar umferðartölur slá öll fyrri met og miðað við áætlanir í dag er ekki ólíklegt að svipuð umferð eða meiri komi inn á svæðið í dag.

Það er ljóst að mikið álag er á flugumferðarstjórum og fluggagnafræðingum Isavia sem starfa í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík, en það hefur sýnt sig að starfsfólkið og fyrirtækið er vel í stakk búið til að takast á við verkefnið.  

Hér að neðan eru flugumferðartölur síðustu ára, þeir dagar sem áður voru metdagar.

22.ágúst 2005- 501 flugvélar
9.maí 2008 - 503 flugvélar
18.ágúst 2007 - 522 flugvélar
9.september 2008 - 525 flugvélar
7.júlí 2007 - 533 flugvélar
1.ágúst 2009 - 543 flugvélar
30.júní 2005 - 546 flugvélar
8.júlí 2007 - 563 flugvélar
22.júlí 2007 - 528 flugvélar
1.júlí 2008 - 576 flugvélar