Hoppa yfir valmynd
4.9.2013
Metumferð í íslenska flugstjórnarsvæðinu  – flognir km í ágúst jafngilda 48 tunglferðum

Metumferð í íslenska flugstjórnarsvæðinu – flognir km í ágúst jafngilda 48 tunglferðum

Nýtt met var slegið í fjölda flugvéla sem fóru um íslenska flugstjórnarsvæðið í ágústmánuði sl. en alls flugu 13.039 flugvélar samtals 18,6 milljónir kílómetra innan svæðisins. Vegalengdin jafngildir rúmlega 48 ferðum til tunglsins og  gera má ráð fyrir að flugvélarnar hafi flutt um fjórar milljónir farþega. Fyrra mánaðarmet er frá júlí 2011 en þá fóru 12.400 flugvélar um flugstjórnarsvæðið. Aukninguna má rekja til legu háloftavinda og nokkuð aukinnar flugumferðar á leiðum yfir Atlantshaf og Norðurheimskaut.

Íslenska flugstjórnarsvæðið er um 5,4 milljónir ferkílómetra að stærð og eitt hið stærsta í heimi. Það nær frá Norðurpól, suður fyrir Ísland, yfir Grænland og austur undir Svalbarða og Noreg og er af svipaðri stærð og allur landmassi Evrópu utan Rússlands. Isavia veitir flugleiðsöguþjónustu innan svæðisins frá flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík og fjarskiptastöðinni í Gufunesi. Þar starfa um 55 flugumferðarstjórar, 15 fluggagnafræðingar og 36 flugfjarskiptamenn við þjónustuna  auk allmargra tæknimanna og starfsmanna stoðsviða félagsins. Árlegar tekjur af þjónustunni nema nærri 4 milljörðum króna sem greiðast af notendum samkvæmt gjaldskrá sem byggir á kostnaðargrunni samþykktum af alþjóðaflugmálastofnuninni.

Helstu viðskiptavinir í íslenska flugstjórnarsvæðinu eru United Airlines, Icelandair, Lufthansa, Delta Air Lines og British Airways.