Hoppa yfir valmynd
20.7.2022
Mikil aukning farþega um Keflavíkurflugvöll

Mikil aukning farþega um Keflavíkurflugvöll

Það var engin lognmolla á Keflavíkurflugvelli í júní mánuði þegar líða tók á háannatíma sumarsins. Alls tókum við á móti 693.889 farþegum sem er meira en fimmföld aukning frá árinu áður þegar 135.838 farþegar ferðuðust um Keflavíkurflugvöll.

Þessi fjöldi kemur kannski ekki á óvart enda var flogið til hvorki meira né minna en 75 áfangastaða frá Keflavík í júní. Kaupmannahöfn trónir þar á toppnum yfir vinsælustu áfangastaðina þegar miðað er við fjölda farþega og voru ferðalangar á leið þangað stór hluti okkar viðskiptavina. Þar á eftir koma París, Boston, New York og Frankfurt.

Erlendir farþegar voru 72.8% af heildar-brottfararfarþegum og Bandaríkjamenn langflestir þar af, eða 30.3%. Þjóðverjar komu þar á eftir, svo Frakkar, Bretar og aðrar Evrópuþjóðir.

Fjórar nýjar pop-up verslanir opnuðu á flugvellinum í lok júní og byrjun júlí og því nóg við að vera á flugvellinum. Búast má við að júlí mánuður verði einnig mjög annasamur á Keflavíkurflugvelli og mælum við með því að ferðalangar mæti tímanlega á völlinn, tryggi að öll ferðagögn séu í gildi og nota kíoskana okkar þegar það hentar.