Hoppa yfir valmynd
1.2.2018
Mikil fjölgun millilandafarþega

Mikil fjölgun millilandafarþega

· 8,76 milljónir farþega fóru um Keflavíkurflugvöll

· Skiptifarþegum og farþegum utan álagstíma fjölgar

· Farþegum um Akureyrarflugvöll fjölgaði um 9%

 

Isavia hefur gefið út tölur um fjölda farþegahreyfinga á helstu flugvöllum á Íslandi árið 2017. Farþegahreyfingar skiptast í komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega og endurspegla því vel álagið á innviði flugvallanna og þróun milli ára.

Áframhaldandi hraður vöxtur á Keflavíkurflugvelli

Fjöldi farþega sem fóru um Keflavíkurflugvöll var 8,76 milljónir og aldrei hafa fleiri átt leið um flugvöllinn. Samtals nam fjölgunin á milli áranna 2016 og 2017 tveimur milljónum farþega eða 28%. Síðastliðin ár hafa farþegahreyfingar hvers árs skiptst nokkuð jafnt í komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega, sem einungis millilenda á flugvellinum. Árið 2017 fjölgaði skiptifarþegum hlutfallslega meira en þeim sem hafa viðdvöl á landinu og voru skiptifarþegar rúmlega þrjár milljónir, brottfararfarþegar 2,82 milljónir og komufarþegar 2,89 milljónir.

Skiptifarþegum fjölgar og árstíðarsveiflan minnkar

Tölurnar rýma vel við farþegaspá Isavia en spáin fyrir árið 2017 gerði ráð fyrir að 8,75 milljónir farþega færu um flugvöllinn. Auk þess má sjá á tölunum að árstíðarsveiflan heldur áfram að minnka og fjölgunin er hlutfallslega mest utan sumartímans. Þessi breyting er afrakstur markviss átaks ferðaþjónustunnar í að efla vetrarferðamennsku og hvatakerfis Isavia, en með því fá flugfélög sem fljúga allt árið afslátt af lendingargjöldum. Þegar horft er til framtíðar er búist við því að Keflavíkurflugvöllur eflist enn frekar sem tengiflugvöllur á milli heimsálfa. Samkvæmt farþegaspá Isavia fyrir árið 2018 mun farþegum halda áfram að fjölga og 10,4 milljónir fara um flugvöllinn á árinu. Spáin gerir ráð fyrir að þar af verði hlutfall skiptifarþega tæplega 40%.

Minni hreyfing í innanlandsflugi

Sú fjölgun farþega sem flýgur til og frá landinu um Keflavíkurflugvöll hefur ekki skilað sér að fullu í innanlandsflugið en fjölgun farþega sem fóru um aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll nam um 2% árið 2017. Mestrar aukningar varð vart á Akureyrarflugvelli en um flugvöllinn fóru tæplega 206 þúsund farþegar, 9% fleiri en árið á undan. Einnig varð fjölgun á Egilsstaðaflugvelli, 99 þúsund farþegar fóru um völlinn, 2,4% fleiri en árið 2016. Þegar aðrir flugvellir en þeir stærstu eru teknir saman er samtals fækkun um 2,7% á milli 2016 og 2017.