Hoppa yfir valmynd
3.5.2021
Mikilvægur samningur fyrir Suðurnesin

Mikilvægur samningur fyrir Suðurnesin

Isavia undirritaði í dag samning við Verkfræðistofu Suðurnesja um framkvæmdaeftirlit og ráðgjöf vegna nýrrar viðbyggingar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Framkvæmdir hefjast á næstu vikum og eru hluti af vinnu við ýmis verkefni sem tengjast stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og umbótum á Keflavíkurflugvelli í framhaldi af hlutafjáraukningu ríkisins í Isavia. Mörg hundruð ný störf verða til í sumar í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir, sem undirbúnar hafa verið á síðustu mánuðum með útboðum og verðkönnunum.

Viðamesta framkvæmdin er fyrirhuguð stækkun austurbyggingar flugstöðvarinnar. Þrjú tilboð bárust í framkvæmdaeftirlit og tilheyrandi ráðgjöf í tengslum við framkvæmdirnar. Lægsta tilboðið var frá Verkfræðistofu Suðurnesja (VSS), 200 milljónir króna. Aðrir sem buðu í verkið voru JT Verk og Hnit. Tilboð VSS var samþykkt og í dag undirrituðu Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, og Brynjólfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri VSS, samninginn.

 „Þetta er mikilvægt skref fyrir okkur öll sem höfum verið að undirbúa næstu áfanga í uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Segja má að samningurinn við VSS marki viss tímamót. Heimsfaraldurinn hefur haft gríðarlega mikil áhrif á okkur en það er afar ánægjulegt að hafa núna fengið tækifæri til að hefja vinnu við uppbyggingaráætlun flugvallarins á ný. Við hlökkum til að sjá framkvæmdaumsvifin hefjast á ný og bíðum spennt eftir því að flugsamgöngur komist einnig smám saman í eðlilegt horf,” segir Sveinbjörn Indriðason

„Við hjá VSS erum mjög ánægð. Samningurinn við Isavia um eftirlit og ráðgjöf vegna framkvæmdanna við austurbyggingu flugstöðvarinnar tryggir mikilvæg störf hér á Suðurnesjum, bæði fyrir verkfræðinga og annað tæknifólk. Þá eru ótalin störf við sjálfar framkvæmdirnar. Vonandi fara hjólin að snúast hraðar – ekki síst hér á Suðurnesjum,” segir Brynjólfur Guðmundsson. Hjá VSS starfa nú 15 manns sem allir nema einn eru búsettir á Suðurnesjum og hefur verkfræðistofan aðsetur í Reykjanesbæ.

Samningurinn við VSS er ekki eingöngu bundinn við fyrsta áfanga austurbyggingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og því mun VSS mögulega einnig koma að eftirliti og ráðgjöf vegna annarra verkefna sem eru á döfinni á Keflavíkurflugvelli á komandi mánuðum.