Hoppa yfir valmynd
12.8.2014
Millilandaflug slær öll met - 1135 manns starfa hjá Isavia og dótturfélögum í sumar

Millilandaflug slær öll met - 1135 manns starfa hjá Isavia og dótturfélögum í sumar

Millilandaflug hefur slegið öll fyrri met í sumar. Umferðin kallar á mikil umsvif hjá Isavia og dótturfélögum, einkum á Keflavíkurflugvelli og í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík.

Farþegafjöldi á Keflavíkurflugvelli í júlímánuði fór í fyrsta sinn yfir 500 þúsund í einum mánuði sem er 17,8% aukning frá fyrra ári. Það sem af er árinu hafa samtals hátt í 2,2 milljónir farþega farið um flugvöllinn eða 20,2% fleiri en 2013. 20 flugfélög halda uppi áætlunarflugi á Keflavíkurflugvelli til 60 áfangastaða beggja vegna Atlantshafsins.

Síðastliðinn mánuð var einnig slegið umferðarmet í íslenska flugstjórnarsvæðinu en 14.548 flugvélar lögðu leið sína um svæðið, mest 612 á einum sólarhring. Er það mesta umferð sem sést hefur að undanskildum maímánuði 2010 þegar megnið af allri umferð yfir N-Atlantshaf fór þar um vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Starfsmenn Isavia í sumar eru alls 1.135 í 1.056 stöðugildum sem er 6,5% aukning frá sama tíma í fyrra. Meðalfjöldi starfsmanna utan háannatíma eru að jafnaði 884 í 791 stöðugildum. Sumarstarfsmenn eru alls 283 og langflestir í Keflavík eða alls 254.

Þá hafa 14 nýir nemar í flugumferðarstjórn tekið til starfa hjá félaginu en þar starfa alls um 100 flugumferðarstjórar í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík og flugturnunum í Keflavík, Reykjavík og á Akureyri. 

Aukinn ferðamannafjöldi kallar á aukin umsvif hjá Isavia, einkum á Keflavíkurflugvelli.