Hoppa yfir valmynd
12.7.2011
Mun aldrei losna við flugbakteríuna - Hafliði Örn Björnsson

Mun aldrei losna við flugbakteríuna - Hafliði Örn Björnsson

Hafliði við gamla flugturninn. Turninn hýsti nánast alla starfsemi Flugmálastjórnar, Slökkvilið Reykjavíkurflugvallar og Veðurstofu Íslands.

Hafliði við gamla flugturninn. Turninn hýsti nánast alla starfsemi Flugmálastjórnar, Slökkvilið Reykjavíkurflugvallar og Veðurstofu Íslands.

Hafliði Örn Björnsson lét nýlega af störfum sem aðflugshönnuður hjá Isavia ohf. eftir fjörutíu ár hjá fyrirtækinu. Hann man tímana tvenna og segir hér frá breytingum sem orðið hafa síðan hann hóf fyrst störf á radíóverkstæði Flugmálastjórnar árið 1956.

Ótrúlegt hvað komst fyrir í gamla turninum
„Þegar ég byrjaði hér var Agnar Kofoed-Hansen flugmálastjóri. Þá var flugstjórnarmiðstöðin á efstu hæðinni í gamla turninum, þessum litla, rauða og hvíta þarna,“ segir Hafliði og bendir út um gluggann á skrifstofu sinni. „Í gamla turninum var flugstjórnarmiðstöðin, turninn, radaraðflugið, fjarritunin og kaffistofan, allt saman á efstu hæðinni. Á þriðju hæðinni var tækjasalur, NOTAM skrifstofa, aðsetur húsvarðar og skrifstofa yfirflugumferðastjóra, sem var faðir minn, á annarri hæðinni var öll starfsemi Veðurstofu Íslands og á neðstu hæðinni var Slökkvilið Reykjavíkurflugvallar. Það er eiginlega ótrúlegt að hugsa til þess í dag að þetta hafi allt verið í þessum litla turni. Í bragga við hliðina á turninum vorum við á radíóverkstæðinu og svo var skrifstofa Flugmálastjórnar í bragga á þeim slóðum sem Háskólinn í Reykjavík er núna. Ég var á radíóverkstæðinu til ársins 1970. Ég fékk að vísu leyfi frá störfum í nokkra mánuði árið 1969 til þess að fara til Biafra í Nígeríu fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar. Þá var stríð í gangi þar og ég fór þangað til þess að sjá um radíótæki í hjálparflugvélum.“

Fór til allra heimsálfa nema Suðurskautsins
 „Árið 1966 fór ég til Oklahoma og lærði meðal annars uppsetningu á ILS og VOR blindlendingarkerfum. Á þessu tímabili lauk ég einnig flugstjóraprófi og siglingafræðiprófi, sem varð til þess að árið 1970 fór ég að starfa hjá Loftleiðum sem siglingafræðingur og flugmaður. Svo var ég flugmaður hjá Cargolux frá 1971 til 1985 og flaug um allan heim. Ég fór til allra heimsálfa nema Suðurskautsins. Árið 1985 hóf ég svo aftur störf hjá Flugmálastjórn, í stuttan tíma á radíóverkstæðinu en gerðist svo aðflugshönnuður auk þess sem ég var flugmaður á Flugmálastjórnarvélinni. Aðflugshönnunin er í raun að hanna blindaðflug og brottflug fyrir allt Ísland. Það felst í því að gera flugmönnum mögulegt að lenda á stöðum þegar veður er lélegt eða slæmt skyggni. Við reiknum út hvað þeir geta komist lágt í aðflugi og ef þeir sjá ekki niður í þessu lágmarki þá þarf að vera klárt að þeir komist í burtu líka. Þetta byggist mikið á kortavinnu og vettvangskönnun. Til þess að geta gert þetta þá þarf að ljúka ströngum námskeiðum sem eru einungis kennd erlendis. Þessi námskeið þarf svo að endurnýja á fimm ára fresti.“

Tækninni hefur fleygt fram
„Hér hefur margt breyst og allt stækkað að umfangi eins og ég nefndi áðan. Í gamla daga var þetta svo lítið að Flugfélag Íslands, Flugmálastjórn og Loftleiðir héldu meira að segja sameiginlega árshátíð. Mestu breytingarnar hafa þó líklega orðið í tæknimálum. Bara á árunum 1970-1985, á meðan ég starfaði sem flugmaður, varð bylting í radíótækjum. Þegar ég kom aftur á radíóverkstæðið árið 1985 kom það fljótt í ljós að ég hafði ekki fylgt tækninni og aðferðirnar mínar þóttu mjög gamaldags. Þeim fannst ég samt alveg rosalegur galdrakarl að geta lagað gömlu lampatækin. Þá hefur aðflugshönnunin einnig breyst mjög mikið. Þegar ég byrjaði vorum við með landakort, blýant, reglustiku og gráðuboga. Það gat skipt miklu máli varðandi nákvæmni hversu vel blýanturinn var yddaður,“ segir Hafliði og hlær, „nú, með tölvum og annarri tækni er þetta orðið miklu nákvæmara auk þess sem aðferðarfræðin á bakvið þetta hefur breyst mikið.“

Á amerískum hertrukki að kaupa vindla
„Í tíð Agnars sem flugmálastjóra vorum við í búningum sem voru dálítið líkir breska herbúningnum. Þetta var meðal annars vegna þess að við sáum um viðhald á endurvarpsstöðvum sem voru staðsettar á radarstöðvum hersins og maður komst ekkert inn á þeirra svæði án þess að vera í einkennisbúningi. Einhvern tíma vorum við Gunnar Waage samstarfsmaður minn við viðhald á endurvarpsstöðinni í Þórshöfn og fengum lánaðan amerískan hertrukk til þess að fara niður í kaupfélag og kaupa okkur vindla. Þegar við komum inn ráku viðskiptavinirnir upp stór augu. Ein konan brást ókvæða við og bað kaupfélagsstjórann um að henda okkur út og spurði hvers lags eiginlega yfirgangur þetta væri af hermönnunum og það væri of langt gengið að koma svona fyrirvaralaust inn í kaupfélagið. Við Gunnar þögðum og gengum svipbrigðalausir að afgreiðsluborðinu. Svo sagði ég við kaupfélagsstjórann: „einn pakka af London Docks“. Konan var ekki lengi að láta sig hverfa þegar hún fattaði að við værum ekki hermenn.“

Á hlut í fjögurra sæta Cessnu
„Þó ég sé að hætta hér mun ég halda áfram að tengjast fluginu. Maður losnar víst aldrei við flugbakteríuna. Sonur minn er líka flugmaður og ég á hlut í fjögurra sæta Cessnu með nokkrum öðrum. Ég hef nú ekki nennt að halda skírteininu við sjálfur, það er svo dýrt þegar maður er ekki mikið í þessu og svo er líka alltaf einhver af meðeigendunum til í fljúga Cessnunni með mér.“