Hoppa yfir valmynd
23.8.2017
Niðurstöður úr könnun á fjölda sjálftengifarþega

Niðurstöður úr könnun á fjölda sjálftengifarþega

Í kjölfar umræðu sem skapaðist fyrr á árinu um áreiðanleika talninga á farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll, og þá sérstaklega óvissu um hlutfall farþega sem tengja á eigin vegum í gegnum flugvöllinn en lenda í brottfarartalningum, ákváðu Isavia og Ferðamálastofa að láta gera úrtakskönnun á tímabilinu 24. júlí til 6. ágúst á meðal brottfararfarþega til að meta vægi þessa í heildarfjölda ferðamanna samkvæmt talningum.

 

5% millilenda eingöngu

Niðurstöður könnunar sýna að 5% brottfararfarþega nota flugvöllinn eingöngu til millilendingar, þ.e. farþegar sem tengja sjálfir á milli tveggja flugfélaga (e. self-connect). Að auki millilentu 6% farþega en nýttu tækifærið til að fara út af flugvellinum og skoða sig um, án þess að gista. Þá voru 3% brottfararfarþega erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi til skemmri eða lengri tíma. Tveir síðastnefndu hóparnir hafa ávallt verið taldir með í ferðamannatalningum og má gera ráð fyrir að vægi þeirra hafi sveiflast eitthvað gegnum árin af ýmsum ástæðum.

 

Ef horft er til talna um fjölda ferðamanna sem fóru frá landinu í júlí má samkvæmt þessu gera ráð fyrir að um 14 þúsund farþegar af 272 þúsundum hafi verið sjálftengifarþegar og teljist þar með ekki til ferðamanna.

 

Fyrirvarar hafa legið fyrir

Brottfarartalningar á Keflavíkurflugvelli hafa frá upphafi verið birtar með ákveðnum fyrirvörum og taka niðurstöður mið af þeirri aðferðafræði sem viðhöfð er. Þær hafa verið notaðar til þess að greina þróun í farþegafjölda og þjóðernissamsetningu erlendra gesta til Íslands og þar sem talningarnar ná til allra brottfara má, eins og fram kemur að framan, rekja hluta þeirra til erlendra ríkisborgara með búsetu á Íslandi til skemmri eða lengri tíma og farþega sem nota flugvöllinn til millilendingar og stuttrar viðkomu í landinu. Síðastliðin misseri hefur nýr hópur bæst við, farþegar sem nýta sér möguleika á að kaupa aðskilda flugleggi og þurfa þá að endurinnrita farangur sinn við millilendingu, sé innritaður farangur með í för.

 

Önnur könnun að vetri

Í kjölfar þeirrar umræðu sem skapaðist um þessa nýju ferðahegðun þóttu Isavia og Ferðamálastofu rétt að gera könnun til þess að tryggja sem best gagnsæi talninganna og áreiðanleika þeirra niðurstaðna sem úr þeim fást. Gert er ráð fyrir að gera aðra úrtakskönnun að vetri til svo hægt sé að sjá hvort munur greinist milli árstíða.

 

Nota fleiri mælikvarða saman

Isavia og Ferðamálastofa vonast til að þessi könnun gagnist þeim sem vinna með talningarnar til að greina markaðsþróun og ferðahegðun erlendra gesta á Íslandi enn frekar. Lögð er áhersla á að fyllsta myndin af stöðu íslenskrar ferðaþjónustu í þessu tilliti fæst ávallt með því að samkeyra öll tiltæk gagnasöfn. Með því að horfa samhliða á tölur um farþegafjölda, fjölda gistinátta, greiðslukortaveltu o.s.frv. hefur til dæmis mátt greina að undanförnu sterkar vísbendingar um að þótt ferðamönnum fjölgi, sé dvalartími að styttast og eyðsla að minnka.

 

Niðurstöður: