Hoppa yfir valmynd
17.1.2024
Nóg við að vera í KEF 2023

Nóg við að vera í KEF 2023

Árið 2023 var viðburðaríkt ár hjá Keflavíkurflugvelli (KEF) þar sem ýmsar nýjungar áttu sér stað. Flugvöllurinn er í stöðugri þróun og var fjöldi nýrra veitingastaða og verslana opnuð í samstarfi við góða samstarfsaðila. Þá var vígður nýr og betri töskusalur sem er fyrsti áfanginn í nýrri austurálmu. Hér verður hlaupið hratt yfir sögu um það sem gerðist á Keflavíkurflugvelli árið 2023.

Framkvæmdir og byggingar

Ýmsum áföngum var náð í uppbyggingu Keflavíkurflugvallar árið 2023. Til að mynda var ný akbraut tekin í notkun, fyrsti áfangi austurálmu var opnaður með glæsilegum töskusal og ný komulandamæri opnuð.

Mike akbraut

Í júlí var ný akbraut formlega tekin í notkun á Keflavíkurflugvelli. Akbrautin, sem hefur fengið nafnið Mike, tengir saman flughlað flugstöðvarinnar og flugbraut. Akbrautin er fyrsta viðbót Isavia við flugbrautarkerfið, en allar aðrar viðbætur voru lagðar af NATO eða Bandaríkjaher.

Með nýrri akbraut er öryggi flugbrautarkerfisins aukið með bættu flæði við komu og brottför. Þetta þýðir að flugvélar komast fyrr af flugbrautum og fyrr inn á þær, sem eykur skilvirkni flugbrautakerfisins og hraðar afgreiðslu flugvéla. Akbrautin minnkar biðtíma flugvéla að komast af akbraut eða komast í loftið á háannatíma og þar af leiðandi minnkar kolefnisspor flugvéla á jörðu, sem er eitt af markmiðum flugvallarins.

Fyrsti áfangi í nýrri austurálmu tekinn í notkun

Nýr og rýmri töskusalur beið þeirra farþega sem lentu á Keflavíkurflugvelli upp úr hádegi fimmtudaginn 31. ágúst. Töskusalurinn er fyrsti áfanginn sem tekinn er í notkun í nýrri austurálmu flugstöðvarinnar og miðar að því að bæta aðstöðu fyrir farþega og upplifun þeirra.

Nýi töskusalurinn á Keflavíkurflugvelli er á jarðhæð í nýrri viðbyggingu, svokallaðri austurálmu. Í honum eru þrjú stærri og breiðari farangurs-móttökubönd, en gert er ráð fyrir að síðar geti tvö færibönd bæst við. Samhliða því verða færiböndin í gamla töskusalnum tekin niður en á því svæði verður síðar opnuð ný og endurbætt fríhafnarverslun fyrir komufarþega.

Ný komulandamæri opnuð

Ný komulandamæri fyrir farþega sem koma til Íslands frá löndum utan Schengen-svæðisins voru opnuð í júní í tímabundinni og endurnýtanlegri viðbyggingu. Nýju landamærin greiða fyrir og bæta afgreiðslu farþega sem koma inn á svæðið í samræmi við nýjar Evrópureglur.

Með opnun nýju landamæranna batnar flæði í flugstöðinni töluvert, þar sem reynt verður að spornað verður við löngum röðum við landamæraeftirlit og biðtími styttur með aukinni skilvirkni, m.a. með sjálfsafgreiðsluvélum. Byggingin sem reist var fyrir nýju landamærin verður notuð þar til búið verður að koma upp nýrri, varanlegri aðstöðu fyrir ytri landamæri Schengen í nýrri tengibyggingu sem nú er í hönnun. Í samræmi við áherslu á endurnýtingu við þróun Keflavíkurflugvallar er viðbyggingin hönnuð með þeim hætti að hægt verður að taka hana niður og nýta í annað þegar hlutverki hennar við landamæraeftirlit lýkur.

Þróunaráætlun fyrir Keflavíkurflugvöll uppfærð

Árið 2023 var þróunaráætlun fyrir Keflavíkurflugvöll uppfærð, en hún er uppfærð á fimm ára fresti. Núgildandi þróunaráætlun gildir til ársins 2045 og byggir í meginatriðum á þróunaráætlun 2015 til 2040 en hefur verið uppfærð í samræmi við breytingar sem hafa orðið frá því hún var gefin út.

Hér er hægt að kynna sér þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar í heild sinni.

Austurálman stærsta framkvæmd í sögu Isavia

Í október ræddi Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, byggingu austurálmu flugstöðvarinnar.

Við austurálmuna er verið að steypa stigahús fyrir væntanlega landganga. Guðmundur Daði segir að frá hvoru stigahúsi verði tveir fingur út í tvær flugvélar. Með því sé hægt að lengja gönguleiðina út í vél ef þörf krefur og þannig hefja innritun fyrr og tryggja jafnara flæði farþega. Innritunin sé jafnan stærsti flöskuhálsinn á flugvöllum og með því auki stigahúsin skilvirkni. Þá verði annað hvort hægt að vera með tvær venjulegar vélar eða eina breiðþotu við stigahúsin sem sé einnig framför.

Viðtalið má lesa í heild sinni hér.

Umhverfismál

Fjórða stigi náð í kolefnisvottunarkerfi Alþjóðasamtaka flugvalla

Stefna Keflavíkurflugvallar í loftslagsmálum, og aðgerðir í þá átt að draga úr kolefnisspori flugvallarins í heild, hlutu árið 2023 fjórða stigs vottun í kolefnisvottunarkerfi Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI).Í kolefnisvottunarkerfinu, ACA (Airport Carbon Accreditation), er metið hvort flugvellir séu að mæla kolefnislosun með réttum hætti. Einnig er metinn árangur aðgerða til að minnka kolefnisspor þeirra. Markmiðið er að draga úr umhverfisáhrifum flugvalla með því að mæla kolefnislosun, stýra henni og minnka. Það er yfirlýst markmið Isavia að starfsemi Keflavíkurflugvallar verði orðin kolefnislaus árið 2030. Þeim árangri verður náð með samstarfi við hagaðila, virkri vöktun á umhverfisþáttum, orkuskiptum og með viðurkenndri kolefnisjöfnun eftir þörfum.

Fulltrúar Isavia héldu erindi á fundinum Sjálfbær Suðurnes

Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Isavia, og Stefán Kári Sveinbjörnsson, verkefnastjóri hjá Isavia, héldu erindi á fundinum Sjálfbær Suðurnes í maí 2023. Hrönn og Stefán Kári fóru meðal annars yfir sjálfbærnivegferð félagsins og markmið í kolefnisleysi í rekstri Isavia sem á að ná til loka ársins 2030. Kynnt var ný kortlagning á kolefnisspori Keflavíkurflugvallar, tæknilegar áskoranir fyrir mismunandi nýtt flugvélaeldsneyti vegna orkuskipta í flugi á Keflavíkurflugvelli sem og orkuþörf millilandaflugs sem áætlað er að verði orðin sem samsvarar að lágmarki 14,7 – 16,5 Svartsengisvirkjunum árið 2050.

Meðal gesta á fundinum voru Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem flutti erindi um leiðina að árangri í loftslagsmálum. Þar fór hann m.a. yfir þau markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040 og fyrst ríkja óháð jarðefnaeldsneyti. Hann fór yfir áskoranirnar framundan og hvernig væri verið að færa okkur nær þessum markmiðum með kortlagningu möguleikanna og aukinni samvinnu.

Opinn kynningarfundur um umhverfismat

Í apríl 2023 bauð Isavia til opins kynningarfundar í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ um umhverfismat á áformum um þróun og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar . Auk umhverfismatsins voru kynnt áform um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli næstu tíu árin og þau markmið sem þeim er ætlað að ná.

Þær framkvæmdir sem Isavia áformar á Keflavíkurflugvelli á komandi árum hafa það að markmiði að bæta innviði og aðstöðu, þannig að flugvöllurinn geti tryggt betri þjónustu og upplifun farþega. Áformin fela meðal annars í sér umtalsverða stækkun flugstöðvarbygginga, byggingu bílastæðahúss, bætta aðkomu að flugvellinum, nýtt svæði fyrir flugfrakt og umbætur sem munu auka skilvirkni núverandi tveggja flugbrauta. Framkvæmdirnar snúast þannig um að Keflavíkurflugvöllur geti með góðu móti tekið á móti þeim fjölda farþega sem farið hefur um völlinn þegar mest er og til að mæta þeirri fjölgun farþega sem fyrirséð er að verði á næstu tíu árum. Isavia hvetur öll til að kynna sér áform um uppbyggingu og þróun Keflavíkurflugvallar og mat á umhverfisáhrifum þeirra. Nánari upplýsingar um umhverfismatsskýrsluna og þróun Keflavíkurflugvallar er að finna í slóðunum hér að neðan.

Sjálfbærni höfð að leiðarljósi í öllu sem við gerum

Egill Björn Thorstensen, verkefnastjóri í stefnumótun og sjálfbærni hjá Isavia, ræddi sjálfbærnistefnu og sjálfbærniramma vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Keflavíkurflugvelli í viðtali við Fréttablaðið á síðasta ári.

„Við erum með ítarleg markmið í sjálfbærnistefnu okkar og horfum þar meðal annars til loftslagsmála og auðlindanýtingar. Við erum með aðgerðaáætlun sem nær yfir árin 2022 til 2026 og auk þess erum við með skilgreind markmið og aðgerðir til ársins 2030,“ sagði Egill. Í viðtalinu sagði Egill Björn ennfremur frá BREEAM vottun framkvæmda á Keflavíkurflugvelli.

„Það er kerfi sem þekkt er á heimsvísu og gerir ýmsar kröfur um efnisval, mengun, úrgangsmál, auðlindanýtingu og fleira. Við ætlum okkur að ná BREEAM Excellent-vottun sem er háleitt markmið fyrir þessa tegund bygginga. Við erum með reynda ráðgjafa til að aðstoða okkur við að ná þessu markmiði enda er þörf á því til þess að uppfylla strangar kröfur,“ segir Egill Björn.

Umhverfismatsskýrsla kynnt

Umhverfismatsskýrsla um stækkun Keflavíkurflugvallar var birt til umsagnar á vef Skipulagsstofnunar.

Skýrslan var unnin að frumkvæði Isavia og fjallar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem félagið áformar á Keflavíkurflugvelli á komandi árum. Framkvæmdunum er ætlað að styrkja innviði flugbrautakerfis, stækka flugstöð og bæta aðstöðu þannig að flugvöllurinn geti tryggt betri þjónustu og upplifun farþega. Framkvæmdirnar snúast þannig um að Keflavíkurflugvöllur geti með góðu móti tekið á móti þeim fjölda farþega sem farið hefur um völlinn þegar mest er og til að mæta þeirri fjölgun farþega sem fyrirséð er að verði á næstu tíu árum. Allar framkvæmdir verða unnar í samræmi við sjálfbærnistefnu Isavia og verður uppbygging flugvallarins vottuð af BREEAM eins og fyrr var lýst, en það er alþjóðlegt vottunarkerfi fyrir sjálfbærni framkvæmda. Auk þess að draga úr umhverfisáhrifum er það mat Isavia að með því verði hægt að draga úr kostnaði á líftíma bygginga.

Fjöldi nýrra veitingastaða og verslana

Það var mikið um að vera á Keflavíkurflugvelli hvað varðar verslanir og veitingastaði og opnaður fjöldi nýrra veitingastaða fyrir gesti á Keflavíkurflugvelli. Veitingastaðurinn Jómfrúin hóf starfsemi við upphaf árs en staðurinn hefur verið rekinn við mikla lukku í miðborg Reykjavíkur um áratugaskeið. Þá hófu veitingastaðirnir Bakað og Elda starfsemi en báðir bjóða þeir upp á veitingar sem henta einstaklega vel fyrir ferðafólk. HAF Studio sá um hönnun á Bakað en kaffihúsið er staðsett í brottfararsal sem og á innritunarsvæðinu á fyrstu hæð flugvallarins og því aðgengilegt öllum sem um flugvöllinn fara. Á veitingastaðnum Elda er sérstök áhersla lögð á gæði og gott hráefni og er veitingastaðurinn í eigu SSP, alþjóðlegs fyrirtækis sem sérhæfir sig í rekstri veitingastaða á flugvöllum og rekur yfir 2500 staði um allan heim.

Að lokum opnuðu Bæjarins beztu pylsur sinn þriðja sölustað á Keflavíkurflugvelli undir lok 2023 – nú í brottfararsal flugvallarins við vegabréfaeftirlitið. Fyrirtækið hefur rekið útibú í verslun 10-11 í komusal flugvallarins frá árinu 2021 og í sumar bættist við pylsuvagn á biðsvæði í suðurbyggingu sem farþegar á leið til Bretlands, Bandaríkjanna og annarra landa utan Schengen fara um.

Ný gleraugnaverslun og Elko stækkar við sig

Á fyrstu mánuðum 2024 var opnuð ný og glæsileg gleraugnaverslun Eyesland á Keflavíkurflugvelli en þar eru seld mörg af eftirsóknarverðustu vörumerkjum á gleraugum og sólgleraugum í dag. Það var teiknistofan Gláma Kím sem á heiðurinn af hönnuninni, Eyesland er staðsett við hliðina á útganginum úr Fríhöfninni í brottfararsal.

Í nóvember 2023 opnaði nýja verslun í komusal Keflavíkurflugvallar með betra aðgengi og auknu vöruúrvali. Verslunin er staðsett í nýjum töskusal flugvallarins, við útganginn úr verslun Fríhafnarinnar.