Hoppa yfir valmynd
25.6.2012
Norðurevrópsk flugleiðsögufyrirtæki mynda samstarfsbandalagið Borealis Alliance

Norðurevrópsk flugleiðsögufyrirtæki mynda samstarfsbandalagið Borealis Alliance

Frá undirritun Borealis Alliance. Ásgeir Pálsson framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia er annar frá hægri.

Frá undirritun Borealis Alliance. Ásgeir Pálsson framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia er annar frá hægri.

Níu fyrirtæki og stofnanir á sviði flugleiðsöguþjónustu í Bretlandi, Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Íslandi, Írlandi, Lettlandi, Noregi og Svíþjóð hafa undirritað samstarfssamning um aukna skilvirkni í flugleiðsöguþjónustu, lækkun kostnaðar og minnkun umhverfisáhrifa. Samstarfsríkin veita alls um 3,5 milljón flugvélum flugleiðsöguþjónustu árlega á 12,5 milljón ferkílómetra svæði í norðanverðri Evrópu og fjölförnustu flugleiðir yfir Norður Atlantshaf.
 
Borealis verkefnið er einstakt í sinni röð en það miðar að því að leita sameiginlegra rekstrar- og viðskiptalausna og styrkir starfsemi sameiginlegra flugstjórnarsvæða í Norður-Evrópu án opinberra tilskipana eða aðkomu flugmálayfirvalda.
 
„Borealis bandalagið er skuldbinding um sameiginlegt hagræði sem við náum ekki fram á eigin spýtur og leið til þess að deila sérfræðiþekkingu meðal allra þátttakenda. Framtakið er sérlega ánægjuleg. Við stöndum öll frammi fyrir kröfum um aukin gæði þjónustunnar, stöðlun tækjabúnaðar og að tryggja hámarksnýtingu fjármuna sem notendur greiða fyrir þjónustuna. Bandalagið mun einnig styrkja framgang rannsóknarverkefna á sviði flugleiðsöguþjónustu (SESAR) í þágu sameiginlegar flugumferðarstjórnar Í Evrópu – Single European Sky. Verkefnið krefst mikillar vinnu, skuldbindingar og trausts og árangurinn ræðst af því hvernig okkur tekst að samræma viðskiptaáætlanir og deila sameiginlegum verkefnum,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu forstjóra flugleiðsöguþjónustufyrirtækjanna níu.
 
Framkvæmdastjórn bandalagsins verður skipuð í sumar en áætlað er að það starfi til reynslu til ársloka 2013 og hefur Lance Stuart frá NATS í Bretlandi verið ráðinn framkvæmdastjóri. Stuart hefur mikla reynslu af stjórn flugleiðsöguþjónustu og alþjóðasamskiptum á því sviði.
 
„Isavia er þátttakandi í Borealis bandalaginu og við væntum mjög mikils af þessu merka framtaki,“ segir Ásgeir Pálsson framkvæmdastjóri flugleiðsöguþjónustu Isavia.