Hoppa yfir valmynd
12.11.2010

Ný aðflugsljós á Egilsstaðaflugvelli tekin í notkun

Í dag voru tekin í notkun ný aðflugsljós við suðurenda flugbrautarinnar á Egilsstaðaflugvelli. Tilkoma þessara ljósa gera það að verkum að  flugbrautin uppfyllir nú kröfur um nákvæmnisaðflug (CAT 1).  Byrjað var undirbúa verkið árið 2005 en verkið hefur dregist vegna skipulagsmála hjá sveitarfélaginu.  Ljósin sem nú hafa verið tekin í notkun ná 900 metra suður fyrir brautarenda og uppfylla staðla Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO).  Brautin uppfyllir einnig fullkomlega staðla vegna blindflugs í flokki CAT 1 og er því sambærileg við brautina á Akureyri eftir síðustu lagfæringar þar.  Ljóst er að ljósin veita töluvert aukið öryggi við lendingar í erfiðum veðurskilyrðum.  

Í allt eru ljósin 166 að tölu, þar af eru 30 sem eru innfelld í flugbrautina og eru fimm styrkleikastillingar. Ljósin eru samtals 33kW en þau ljós sem voru fyrir voru 10kW, aukningin samsvarar því 2,5 sinnum núverandi braut.  

Til að setja orku ljósanna í samhengi þá þarf ein átta hæða blokk á Egilsstöðum ca. 115A  við mesta álag sem sennilega er á aðfangadag þannig að orkuþörf ljósanna á flugvellinum er jöfn þremur átta hæða blokkum þegar orkuþörfin er sem mest. Rafmagnskaplarnir sem þurfti í þetta verk eru 24 km sem samsvarar lengd frá flugvellinum inn á Hallormsstað.   Heildarkostnaður við verkið er um 120 milljón krónur.

Jörundur Ragnarsson umdæmisstjóri Isavia á austurlandi var ánægður með nýju aðflugsljósin „Egilsstaðaflugvöllur er alþjóðlegur flugvöllur og gegnir því veigamiklu hlutverki sem slíkur og aðflugsljósin auka enn frekar öryggi flugvallarins“ sagð Jörundur.