Hoppa yfir valmynd
20.2.2020
Ný aðgerðaáætlun í umhverfismálum samþykkt fyrir Isavia

Ný aðgerðaáætlun í umhverfismálum samþykkt fyrir Isavia

Losun gróðurhúsalofttegunda hjá Isavia hefur minnkað um 40% á hvern farþega frá því sem var árið 2015. Þar með hefur verið stigið stórt skref í umhverfismálum á vettvangi Isavia.

Annað stórt skref er sú ákvörðun framkvæmdastjórnar Isavia að samþykkja uppfærða aðgerðaáætlun í umhverfismálum fyrir fyrirtækið og dótturfélög þess. Sérstök áhersla er sett á aðgerðir í ár og á næsta ári.

Þegar horft er til losunar gróðurhúsalofttegunda þá er markmiðið að hún minnki á árinu 2020 um sem nemur 40%, um 50% árið 2025 og síðan um 60% árið 2030. Miðað er við minnkun frá losun ársins 2015. Horft er til þess að minnka notkun á jarðefnaeldsneyti í starfsemi Isavia um 4% á hvern farþega á milli ára.

Orkuskipti bíla og tækjaflota

Liður í þessu mikla verkefni er endurnýjun á bílaflota félagsins. Keyptir verði rafmagns-, hybrid- eða metanbílar þar sem slíkir valkostir eru í boði. Þegar kemur að eðlilegri endurnýjun á rútum, tækjum og búnaði eins og til dæmis sameykjum skal velja vistvænustu lausnina sem uppfyllir þarfir félagsins. Þá skal skoða möguleikann á breytingum á tækjum og búnaði til þess að hægt sé að nota aðra orkugjafa eins og t.d. metan eða rafmagn. Einnig skal skoða möguleikana á því að nota íblöndun á lífdísil fyrir orkufrek tæki. Notkun á bílum og tækjum þarf að vera kolefnislaus á næstu árum þannig að uppfylla megi skuldbindingar Isavia gagnvart NetZero aðgerð Evrópudeildar Alþjóðasamtaka flugvalla, ACI Europe, sem felur í sér að kolefnislosun í beinni starfsemi verið hætt fyrir 2050.

Hleðslustöðvar eru á skammtíma- og starfsmannabílastæðum við Keflavíkurflugvöll og víðar hjá fyrirtækinu. Þeim verður fjölgað til að mæta þörfum hverju sinni. Sú þörf verður endurmetin á hverju ári. Þá verður þörfin metin á tengingum fyrir þjónustuaðila á Keflavíkurflugvelli til að hlaða bíla og búnað.

Kolefnisjöfnun á starfsemi Isavia

Samkvæmt stefnu félagsins verða Isavia og dótturfélög kolefnishlutlaus árið 2021.Vinna er hafin við að uppfylla kröfur vegna ISO staðals 14001 um umhverfisstjórnun og á henni að ljúka fyrir næstu áramót. Fyrir lok árs 2021 verði síðan Keflavíkurflugvöllur búinn að ná þriðja stigi í ACA (Airport Carbon Accreditation) sem er fjögurra stiga kolefnisvottunarkerfi fyrir flugvelli sem sett var á laggirnar af Alþjóðasamtökum flugvalla (ACI).

Þessu tengt þá er markmið Isavia að hlutfall flokkaðs úrgangs verið 40% í lok þessa árs, 55% árið 2025 og 70% árið 2030. Dregið verður til að mynda úr magni umbúða utan um vörur, tæki og búnað sem kemur inn í flugstöð og á flugvallarsvæði. Innkaupum á einnota drykkjar- og matarílátum verði hætt og innkaupum á áhöldum úr plasti einnig. Notkun á plastumbúðum verði lágmörkuð og áhersla lögð á aðgerðir gegn matarsóun.