Hoppa yfir valmynd
6.7.2018
NÝ BREIÐÞOTA AIRBUS Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI

NÝ BREIÐÞOTA AIRBUS Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI

A330neo, nýrri breiðþotu frá Airbus, var lent í Keflavík í fyrsta sinn fimmtudaginn 5. júlí 2018. Flugvélin kom beint frá höfuðstöðvum Airbus í Toulouse í Frakklandi. Vélin var hér á landi í um það bil þrjár klukkustundir en var því næst flogið til Chicago í Bandaríkjunum, sem var næsti áfangastaður þotunnar.

Flug A330neo þotunnar er lokahluti af reynsluflugi og prófunum hennar sem leiða til vottunar á þriðja ársfjórðungi þessa ár. Samtals verður þotunni lent á tíu stórum flugvöllum og mun leggja að baki 150 tíma í reynsluflugi.

Þotan sem lenti á Keflavíkurflugvelli er af gerðinni A330-900 og máluð í litum portúgalska flugfélagsins TAP Air Portugal. Það er fyrsta flugfélag í heimi sem tekur þotur af þessari gerð í notkun.

WOW Air verður þriðja flugfélagið í heimi til að taka A330neo þotuna í notkun síðar á þessu ári. Fram kemur í tilkynningu frá WOW Air að félagið hafi valið þessa þotugerð vegna þess hve rekstrarkostnaðurinn er lágur og nýting á eldsneyti góð. Keflavíkurflugvöllur var valinn sem áfangastaður í reynsluflugi þotugerðarinnar með hliðsjón af stærð vallarins og af því WOW Air byggir flugflota sinn á Airbus vélum og fær þotu af þessari gerð.