Hoppa yfir valmynd
9.9.2019
Ný stöðvunarljós auka öryggi á Keflavíkurflugvelli

Ný stöðvunarljós auka öryggi á Keflavíkurflugvelli

Fimmtudaginn 5. september síðastliðinn voru teknar í notkun á Keflavíkurflugvelli ný stöðvunarljós, svo nefndar stöðvunarslár (Stop bar). Svo skemmtilega vill til að kveikt var á þessum ljósum um leið og Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar, er haldin í tuttugasta sinn. Isavia er einn af  bakhjörlum hátíðarinnar og hafa verið það síðustu ár. Stuðningurinn er sérstaklega tengdur heimatónleikunum vinsælu sem haldnir voru á Ljósanótt á föstudaginn 6. september. Þetta var í fimmta sinn sem blásið var til heimatónleika þar sem íbúar í gamla bæ Reykjanesbæjar bjóða til tónleika heima hjá sér.

Stöðvunarslárnar eru staðsettar á akbraut við flugbrautir á Keflavíkurflugvelli. Auk þeirra hafa einnig verið settar upp sérstakar slár sem banna innakstur (No entry bar). Ekki má aka yfir þessar slár þegar rautt ljós skín. Ljósin eru mikilvægur þáttur í fyrirbyggingu brautarátroðnings og eiga bæði við um loftför og ökutæki sem starfrækt eru innan flugvallarsvæðisins.

Þröstur V. Söring, framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar, segir að stórt og afgerandi skref hafi verið stigið í átt til aukins öryggis á flugvellinum með nýju ljósunum. Rekstur flugvallarins verður einnig skilvirkari með nýja ljósakerfinu, sérstaklega við erfið veðurskilyrði. Ákvörðun um að setja kerfið upp hafi fæðst fyrir um 4 árum þegar farið var í þá vegferð að endurnýja rafdreifi- og ljósakerfi flugvallarins í heild. Það sé frábært að sjá þetta verða að veruleika.

Þröstur segir að mjög margar starfseiningar hjá Isavia hafi lagt hönd á plóg til að láta þetta verða að veruleika. Þar megi nefna flugvallarþjónustuna á Keflavíkurflugvelli og raftæknideild flugleiðsögusviðs. Þá hafi verkefnastýring frá Þróun og stjórnun (ÞOS) skipt miklu, sem og sú vinna sem leiðbeinendur Isavia hafi unnið við gerð nýs þjálfunarefnis fyrir starfsfólk í flugturni og á flugvellinum. Til viðbótar hafi flugumferðastjórar farið í gegnum aukna þjálfun sem og allir þeir sem séu með akstursheimild á vellinum. Búið sé að kynna nýja kerfið fyrir flugrekendum á Keflavíkurflugvelli og flugmenn upplýstir um notkun þess.

Það að við höfum náð að ljúka þessu verkefni innan tilgreinds kostnaðar- og tímaramma sýni okkur hverju starfsfólk Isavia fái áorkað þegar við snúum bökum saman og vinnum að sameiginlegu markmiði segir Þröstur.