Hoppa yfir valmynd
2.11.2015
Ný tækni við flugumferðarstjórn minnkar útblástur í íslenska flugstjórnarsvæðinu

Ný tækni við flugumferðarstjórn minnkar útblástur í íslenska flugstjórnarsvæðinu

Isavia tók nýverið í notkun svokallaða ADS-B tækni í flugumferðarstjórn á þeim hluta íslenska flugstjórnarsvæðisins sem mest umferð fer um. Tæknin byggir á GPS gögnum og gefur nákvæmari og örari upplýsingar um staðsetningu flugvéla. Notkun tækninnar verður innleidd í þrepum. Þegar hafa verið teknar í notkun ADS-B stöðvar á Íslandi og í Færeyjum en nú var hún tekin í gagnið yfir Grænlandi. Til að byrja með geta flugumferðarstjórar notað 10 sjómílna aðskilnað við lækkun og hækkun flugvéla yfir Grænlandi. Að lokum mun ótakmarkaður 10 sjómílna aðskilnaður verða tekinn í notkun. Þetta er mikil bylting, enda var aðskilnaður á úthafssvæðum um 50-60 sjómílur fyrir tilkomu ADS-B. Breytingin mun bæði auka öryggi og sveigjanleika. Nú geta fleiri flugvélar flogið hagkvæmustu flugleiðirnar hverju sinni.

Áhrif þessa eru margvísleg fyrir umhverfi, farþega og flugfélög. Með þessu geta flugleiðir orðið styttri, flugfélög geta nýtt sér hagkvæmustu flughæð hverju sinni og þannig verður ferðin umhverfisvænni og ódýrari með minni útblæstri og minni eldsneytisnotkun. Að auki er um nákvæmari gögn að ræða sem eykur öryggi og hjálpar flugmönnum að sneiða hjá óhagstæðu veðri og ókyrrð.

ADS-B stendur fyrir Automatic Dependent Surveillance-Broadcast og er kerfi þar sem flugvélar með ADS-B búnað senda frá sér örar GPS staðsetningar (og fleiri upplýsingar s.s. kallmerki, hæð, og hraða). Jarðstöðvar á fjallstoppum á Grænlandi, Íslandi, og Færeyjum taka á móti merkinu og skila í flugstjórnarmiðstöðina í Reykjavík þar sem upplýsingarnar eru birtar flugumferðarstjórum líkt og ratsjárgögn. Kostir ADS-B framyfir ratsjárgögn eru að upplýsingar um staðsetningu flugvéla eru nákvæmari og þær berast örar (á 0,5 – 2 sek fresti á meðan ratsjá uppfærir staðsetningu vélar á 5 - 12 sek fresti). Þá er búnaðurinn sem þarf til að taka á móti ADS-B merki ódýrari en ratsjár, bæði í innkaupum og rekstri. Þar af leiðir út frá hagkvæmnisjónarmiðum að hægt er að koma ADS-B búnaði fyrir víðar en ratsjám.

Isavia stýrir flugumferð í íslenska flugstjórnarsvæðinu úr flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík. Íslenska flugstjórnarsvæðið er eitt hið stærsta í heiminum, alls um 5,4 milljónir ferkílómetra. Um 265 starfsmenn vinna á flugleiðsögusviði Isavia, flugumferðarstjórar, tæknimenn og fleiri. Svæðið nær frá Greenwich-lengdarbaugnum í austri og vestur fyrir Grænland, frá norðurpólnum og suður fyrir Færeyjar, langleiðina til Skotlands. Um svæðið fara upp undir 600 flugvélar á sólarhring og samtals eru um 186 milljónir kílómetrar flognar innan marka svæðisins árlega.

Nánari upplýsingar um ADS-B er að finna hér