Hoppa yfir valmynd
27.4.2023
Nýr eldfugl notaður í fyrsta sinn á flugslysaæfingu á Vopnafjarðarflugvelli

Nýr eldfugl notaður í fyrsta sinn á flugslysaæfingu á Vopnafjarðarflugvelli

Það voru um áttatíu sem tóku þátt í flugslysaæfingu sem haldin var á Vopnafjarðarflugvelli laugardaginn 22. apríl 2023. Æfingin er sú fyrsta sem haldin er á íslenskum flugvöllum í ár.

Æfingin byggir á viðbragðsáætlun fyrir Vopnafjarðarflugvöll. Þátttakendur voru frá öllum viðbragðsaðilum á svæðinu í kring auk þess sem aðgerðastjórn var á Egilsstöðum og samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð. Starfsfólk Isavia Innanlandsflugvalla á vellinum æfði sinn viðbúnað sem og slökkvilið, fulltrúar almannavarna, lögreglu, björgunarsveita, Rauða krossins, Landhelgisgæslunnar og heilbrigðisstofnana.

Líkt var eftir því að Twin Otter flugvél hefði brotlent við brautarenda með nítján um borð og 300 lítra af eldsneyti. Björgunar- og slökkviaðgerðir voru æfðar, flokkun og björgun slasaðra á vettvangi og söfnunarsvæði slasaðra á flugvellinum. Áhersla var m.a. lög á boðunarkerfi, stjórnun á vettvangi, flutning á slösuðu fólki og samhæfingu svo einhverjir áhersluþættir séu nefndir. 

„Flugslysaæfingar sem þessar skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur að því að efla viðbúnað við flugslysum og hverjum þeim alvarlegu  slysum sem geta orðið í nærsamfélagi flugvalla á Íslandi,“ segir Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og æfingastjóri. „Almannavarnir og við hjá Isavia leggjum mikla áherslu á að æfingar eins og þessi sem haldin var á Vopnafjarðarflugvelli líki sem mest eftir því sem getur orðið þegar alvarleg almannavá verður. Þannig geta viðbragðsaðilar reynt sig þeim aðstæðum sem skapast í alvarlegum slysum.

„Það er gaman að segja frá því að á æfingunni á Vopnafjarðarflugvelli var nýr eldfugl svokallaður hjá Isavia notaður í fyrsta sinn í skipulagðri flugslysaæfingu,“ segir Friðfinnur F. Guðmundsson, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia. „Færanlegi eldfuglinn (Mobile Aircraft Fire Training Simulator) er líkan af flugvél á gámafleti sem er notað til þjálfunar í slökkvi- og björgunarstörfum hjá Isavia. Hægt er að búa til ýmsar sviðsmyndir til æfingar með eldfuglinum. Hann gengur fyrir fljótandi gasi og því eins umhverfisvænn og tæki af þessu tagi geta orðið. Ætlunin er að nota hann á æfingum á öllum flugvöllum landsins og æfingin á Vopnafjarðarflugvelli sú fyrsta.“ 

Áætlað er að halda þrjár flugslysaæfingar til viðbótar á þessu ári. Þær verða á Bíldudal, Húsavík og Egilsstöðum.