Hoppa yfir valmynd
17.2.2021
Nýr hugbúnaður fyrir upplýsingaþjónustu flugmála samþykktur

Nýr hugbúnaður fyrir upplýsingaþjónustu flugmála samþykktur

Samgöngustofa samþykkti nýverið notkun á nýjum hugbúnaði fyrir upplýsingaþjónustu flugmála (AIS/AIM). Þar með er hrundið í framkvæmd breytingum á kerfinu á grundvelli samstarfssamnings sem Isavia ANS og LFV (Loftfarsverket) í Svíþóð undirrituðu í lok árs 2018.

Vinna við innleiðingu hófst í byrjun árs 2019 þegar starfsmenn frá LFV og framleiðanda hugbúnaðarins IDS (Ingegneria Dei Sistemi) komu í heimsókn til Íslands að kynna sér aðstæður og ræða við starfsmenn.

Samkvæmt samningnum sameinast þrír þjónustuveitendur, þ.e. Isavia ANS, LFV og NAVIAIR í Danmörku, um innleiðingu nýs hugbúnaðar í sínum rekstri. Um leið og Samgöngustofa gaf formlegt samþykki fyrir notkun hugbúnaðarins þann 15. febrúar síðastliðinn var hann jafnframt afhentur þann dag til notkunar.

„Þetta nýja kerfi hefur í för með sér töluverðan ávinning í rekstri okkar,“ segir Kjartan Briem, framkvæmdastjóri Isavia ANS. „Með nýja kerfinu náum við fram hagkvæmni, aukinni framleiðslugetu auk þess sem Isavia ANS verður gert mögulegt að uppfylla nýjar kröfur. Við drögum úr kostnaði og spörum tíma í ýmsum verkefnum félagsins.“

Kjartan Briem, framkvæmdastjóri Isavia ANS

„Hugbúnaðurinn sem um ræðir mun nýtast vel inn í framtíðina, m.a. til að annast verkefni sem tengjast ýmsum og fjölbreyttum verkefnum í okkar rekstri,“ segir Haraldur Ólafsson, deildarstjóri ATS flugvalla, AIS og MET hjá Isavia ANS.

Meðal þeirra verkefna og aðgerða sem nýi hugbúnaðurinn tekur til eru: 

  • Gagnagrunnur flugmálagagna
  • Útgáfu Flugmálahandbókar Íslands (AIP)
  • Kortagerð
  • Hönnun flugferla
  • Rafræn samskipti við EAD (Evrópskur gagnagrunnur flugmálagagna)
  • Umsýsla með landslags- og hindrunargögnum
  • Útgáfa Notam (tilkynninga til flugmanna)

Anna Helena Wåhlin, framkvæmdastjóri hjá LFV, og Ásgeir Pálsson, frv. framkvæmdastjóri Isavia ANS, við undirritun samningsins í desember 2018

Fulltrúar LFV og IDS í heimsókn hjá Isavia í janúar 2019