Hoppa yfir valmynd
19.10.2010

Nýtt flugprófunarkerfi mun auka afkastagetu í flugprófunum

Isavia hefur um áraraðir sinnt flugprófunum á flugleiðsögubúnaði og þá sérstaklega aðflugsbúnaði fyrir flugvelli.  Auk flugprófana á öllum flugvöllum á Íslandi sér Isavia um flugprófanir á Vágar flugvelli í Færeyjum og á öllum borgaralegum flugvöllum í Grænlandi samkvæmt sérstökum samningi við dönsk, færeysk og grænlensk stjórnvöld.

Flugprófanir eru nauðsynlegar til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til rekstrar á flugleiðsögu-og flugvallaþjónustu, samkvæmt alþjóðakröfum verður að sannreyna virkni þessa búnaðar með ákveðnu millibili.  

Isavia hefur nú tekið í gagnið nýjan flugprófunarbúnað sem hefur verið samþykktur af Flugmálastjórn Íslands. Þessi nýi búnaður Unifis3000 mun auka afkastagetu flugprófana, minnka mannaflaþörf í flugprófunum auk þess sem prófanirnar verða minna háðar veðurfari. Öll þessi atriði munu gera flugprófanir Isavia samkeppnishæfari og fyrirtækið betur í stakk búið til að sinna þessu hlutverki.  Undirbúningur af þessu verkefni hófs fyrst árið 2004, og mikil vinna er að baki við að koma þessum breytingum á laggirnar.