Hoppa yfir valmynd
25.6.2013

Nýtt skipurit Isavia

Breyting hefur verið gerð á skipuriti Isavia með nýrri skipan og verkefnum stoðsviða sem veita fjölbreytta þjónustu þvert á rekstrareiningar félagsins. Þá hefur Elín Árnadóttir verið ráðin aðstoðarforstjóri félagsins með ábyrgð á Þróunar-og stjórnunarsviði og Sigurður Ólafsson framkvæmdastjóri Mannauðs-og árangurssviðs.
 
Umsvif félagsins hafa aukist verulega frá stofnun þess fyrir þremur árum með auknum umsvifum og starfsmannafjölda. Breytingarnar miða að því að nýta viðskiptatækifæri og auka tekjur félagsins ásamt því að gera stefnumörkun markvissari og heildarrekstur skilvirkari. Nokkur verkefni sem áður tilheyrðu Fjármálasviði flytjast á nýtt Mannauðs- og árangurssvið og verkefni Skrifstofu yfirstjórnar færast á nýtt Þróunar- og stjórnunarsvið ásamt nokkrum verkefnum sem voru áður á Fjármálasviði. Stoðþjónusta við dótturfélög er nú að mestu komin inn á stoðsvið móðurfélagsins.
 
Þróunar- og stjórnunarsvið mun annast stefnumörkun, markaðs- og  upplýsingamál,  viðskiptaþróun, lögfræðileg málefni og stjórnunarhætti, skipulag og þjóðréttarlegar skyldur sem Isavia leysir af hendi. Elín Árnadóttir hefur undanfarin ár gegnt starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs Isavia, Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. sem hún einnig veitt forstöðu um hríð.
 
Mannauðs- og árangurssvið annast starfsþróun, þjálfun og fræðslu, launavinnslu og kjarasamninga, innri samskiptamál, innleiðingu stefnu og árangursmælingar. Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri sviðsins hefur verið starfsmannastjóri Isavia frá stofnun og gegndi áður sama starfi hjá Keflavíkurflugvelli.
 
Fjármálasvið mun eftir breytingu samanstanda af reikningshaldi og hagdeild, fjárstýringu og fjármögnun, innkaupum og kerfisþjónustu. Staða framkvæmdastjóra fjármálasviðs hefur verið auglýst til umsóknar og fer Elín Árnadóttir með stjórn þess þar til ráðið verður í starfið.