Hoppa yfir valmynd
23.4.2020
Öll él birtir upp um síðir

Öll él birtir upp um síðir

Nú þegar sumarið gengur formlega í garð á fyrsta degi Hörpumánaðar er við hæfi að líta um öxl og fara yfir veturinn sem er nýliðinn. Vetrarmánuðirnir síðustu hafa á margan hátt verið erfiðir. Þeir hafa reynt á samfélagið á Íslandi sem og annars staðar í heiminum.

Í upphafi var það ofsaveður af ýmsu tagi sem truflaði rekstur flugvalla Isavia. Flugferðum var aflýst, flýtt eða frestað í nokkurra hundraða tali. Um tíma leið ekki sú vika að ekki væri svo vindsamt eða það mikil ofankoma að það hefði ekki áhrif á flugsamgöngur til og frá Íslandi eða á milli landshluta.

Til marks um þetta þá hefur snjóað umtalsvert á Keflavíkurflugvelli í vetur. Áætlað er að snjómagnið á flugvellinum í vetur hafi verið 270 sentimetrar af jafnföllnum snjó sem er 7% meiri snjókoma en meðaltal síðustu fimm vetra. Fyrir vikið er ljóst að snjómokstur á vellinum hefur verið umtalsverður. Á nýliðnum vetri er áætlað að búið sé að moka 250 þúsund tonnum af snjó af flugbrautum og flughlaði en það er 34% meira en veturinn þar á undan.

Þegar skammt var liðið á árið 2020 og töluvert dró úr vetrarveðrinu þá bárust fregnir af nýrri og skæðri kórónaveiru sem veldur sjúkdóminum Covid 19. Veiran hefur valdið veikindum og dauðsföllum um allan heim, aukið álag á heilbrigðiskerfi víða og haft þau áhrif að flugsamgöngur hafa nær stöðvast. Landamærum hefur verið lokað og farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkað umtalsvert.

Fram hefur komið að umferð farþega um Keflavíkurflugvöll dróst saman um 99% fyrri hluta apríl samanborið við sama tímabil í fyrra. Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, sagði í viðtali við fréttaskýringaþáttinn Kveik á RÚV sem tekið var upp 8. apríl að gert væri ráð fyrir að farþegum gæti fækkað um helming þegar árið 2020 yrði gert upp frá því sem var 2019. Þegar þátturinn var sýndur þriðjudaginn 21. apríl höfðu farþegaforsendur breyst mikið og nú er gert ráð fyrir talsvert meiri fækkun farþega á Keflavíkurflugvelli í ár en áður var talið. Ljóst sé að myndin hafi dökknað talsvert og mikilvægt að gera ráð fyrir að niðursveiflan verði dýpri og vari lengur en búist hafi verið við.

Þær fréttir bárust að morgni sumardagsins fyrsta að vetur og sumar hefðu aðeins frosið saman á nokkrum stöðum á landinu. Í Sögu daganna – hátíðir og merkisdagar eftir Árna Björnsson, þjóðháttafræðing, segir að það væri talið góðs viti ef sumar og vetur frjósi saman. Fólk hafi sett skál eða skel með vatni út kvöldið fyrir sumardaginn fyrsta og vitjað hennar svo eldsnemma morguns til að skera úr um hvort vetur og sumar hefðu sannarlega frosið saman eða ekki. Vonandi verður komandi sumar þrátt fyrir allt gott og gjöfult þó árstíðirnar hafi ekki frosið saman nema nema á stöku stað.

Starfsfólk Isavia horfir í það minnsta bjartsýnt fram á veginn. Það liggja mörg tækifæri í loftinu og flug mun til framtíðar halda áfram að skapa ný og spennandi tækifæri fyrir íslenskt samfélag. Næstu mánuðir verða fullir af áskorunum fyrir Isavia og samfélagið í heild sinni og við tökumst á við þau verkefni af þeim sama krafti og áður. Þó að Covid 19 faraldurinn sé í rénun í samfélaginu og fyrsta aflétting á samkomubanni handan við hornið þá skiptir miklu máli að fólk sé áfram meðvitað um að hættan á smitum er enn til staðar. Miklu skiptir að halda einbeitingunni inn í sumarið og áfram, allt þangað til að við erum sannarlega komin í örugga höfn.