Hoppa yfir valmynd
12.5.2010

Ótrúlegar flugumferðartölur á íslenska flugstjórnarsvæðinu - 1012 flugvélar

Fjórða daginn í röð var metumferð í íslenska flugstjórnarsvæðinu, á síðasta sólarhring flugu 1012 flugvélar um svæðið. Sólarhringinn áður voru 984 flugvélar þar áður 906 flugvélar og svo 758. Fyrra umferðarmet var sett 1.júlí 2008 þegar 576 flugvélar flugu inn á íslenska flugstjórnarsvæðið.

Til að setja þessar umferðartölur í samhengi þá er meðalumferðardagur frá byrjun eldgossins í Eyjafjallajökli 279 flugvélar. Meðaldagur á sama tímabili í fyrra var 258 flugvélar. Meðaldagur á öllu síðasta ári var 278. Á þessum tölum má sjá að umferðarmagnið sem kom inn á svæðið á degi hverjum þessu síðustu fjóra sólarhringana var með ólíkindum. Óhjákvæmilegt var að setja takmarkanir á umferðarflæðið síðustu sólarhringa en það skapað ákveðna töf í Evrópu. Á þessu fjögurra daga tímabili lá flugumferðin óvenju norðanlega inn í íslensks svæðinu sem hafði það í för með að flugvélarnar voru töluvert lengur en venjulega inn á svæðinu.

Á degi hverjum fara um 1200 – 1300 flugvélar yfir Norður – Atlantshafið á síðustu dögum hefur það að öllum líkindum verið minna og því óhætt að segja að nánast öll flugumferð sem fór yfir Norður-Atlandshafið hafi farið hér í gegn.  Íslenska flugstjórnarsvæðið er 5,4 milljónir ferkílómetrar að stærð og er eitt stærsta úthafssvæði heims.

Gífurlegt álag hefur verið þessa síðustu daga á starfsmenn Isavia, bæði flugumferðarstjórar og fluggagnafræðingar hafa með samstilltu átaki og dugnaði unnið að því að koma flugumferðinni sína leið. Einnig hefur verið óvenjulega mikið álag á starfsmenn Gannet sem er dótturfélag Isavia. Gannet er skeytadreifingaraðili milli flugumferðarstjóra og flugvéla, á síðasta ári voru að meðaltali gefin út 1524 skeyti á sólarhring en á síðustu fjórum dögum eru þau 4609 að meðaltali.