Hoppa yfir valmynd
4.10.2019
Óveður raskar flugi til og frá Keflavíkurflugvelli

Óveður raskar flugi til og frá Keflavíkurflugvelli

Vegna veðurs hefur orðið röskun á flugi til og frá Keflavíkurflugvelli í dag og er útlit fyrir að svo verði fram á laugardagsmorgun. Búið er að aflýsa öllum flugferðum Icelandair frá Keflavíkurflugvelli í dag. Þá er búið að taka allar landgöngubrýr úr notkun vegna mikils hvassviðris. Veðurspá gerir ráð fyrir að það ástand geti varað þar til í fyrramálið. Farþegar eru hvattir til að fylgjast með upplýsingum um flugtíma á vef Isavia eða hjá viðkomandi flugfélögum. Hægt er að skrá sig fyrir flugtilkynningum um komur og brottfarir á vefnum og fá þær með Messenger eða Twitter.

Á Keflavíkurflugvelli er unnið eftir reglum um aðgerðir og viðbrögð þegar óveðursástand skapast á Keflavíkurflugvelli. Þessar reglur eru grundvallaðar á því að tryggja öryggi farþega og er það ávallt sett í fyrsta sæti í þeim aðstæðum. Þegar slæmar veðuraðstæður verða á Keflavíkurflugvelli er í ákveðnum tilfellum nauðsynlegt að takmarka notkun á landgöngubrúm þannig að hægt sé að forðast slys á fólki og því til viðbótar koma í veg fyrir skemmdir á tækjum og búnaði.

  • Vindhviður yfir 50 hnúta (tæpir 26 m/s) – allar landgöngubrýr teknar úr notkun af öryggisástæðu þ.e. til að tryggja öryggi farþega og koma í veg fyrir slys á fólki.
  • Notkun stigabíla er á hendi flugþjónustuaðila á flugvellinum og þá í samráði við viðkomandi flugfélög.