Hoppa yfir valmynd
4.7.2018
PRJÓNAÐ UTAN UM SÚLUR Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI

PRJÓNAÐ UTAN UM SÚLUR Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI

Prjónuð teppi hafa nú verið sett utan um tvær súlur í öryggisleitarsal á Keflavíkurflugvelli. Teppin eru þar til sýnis a.m.k. út árið í tilefni af 100 ára fullveldisafmælis Íslands. Þau eru afrakstur samvinnuverkefnis Isavia,Textílseturs Íslands á Blönduósi, Blönduskóla, Húnavallaskóla, Höfðaskóla og Concordia-háskólans í Kanada.

Nemendur og starfsmenn grunnskólanna þriggja prjónuðu á vordögum stykki í fánalitunum. Nemendur Concordia-háskólans saumuðu þessi stykki saman í teppi í samvinnu við fleira áhugafólk um prjónaskap. Teppin voru síðan til sýnis á Prjónagleði sem haldin var á Blönduósi í byrjun júní 2018.

Verkefninu var ætlað að auka þekkingu og innsýn grunnskólanemanna í söguna, samfélagið og fullveldishugtakið nú á þessum merku tímamótum. Leitast er við að auka þekkingu á prjóni og mikilvægi þessa þjóðararfs í sögu landsins um leið og það er kynnt fyrir öllum þeim fjölda erlendra farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll.

Jóhanna Erla Pálmadóttir, framkvæmdastjóri Textílsetursins segir að upphaf verkefnisins megi rekja til þess að Isavia hafi haft samband við nefnd um afmæli fullveldisins með þá hugmynd að fá súlur í flugstöðinni skreyttar í tilefni hátíðarhaldanna. Það hafi verð bent á Textílsetrið því Blönduós væri orðinn þekktur staður fyrir prjónagraff.