Hoppa yfir valmynd
1.7.2021
Rúmlega 200 manns tóku þátt í miðnæturhlaupi á Reykjavíkurflugvelli

Rúmlega 200 manns tóku þátt í miðnæturhlaupi á Reykjavíkurflugvelli

Rúmlega 200 hlauparar tóku þátt í miðnæturhlaupi Isavia á Reykjavíkurflugvelli sem haldið var í tilefni af því að völlurinn er 80 ára í ár. Hlaupið var af stað á flugbraut á vellinum kl. 23:30 að kvöldi miðvikudagsins 30. júní.

Hægt var að hlaupa þrjá eða sex kílómetra og hófst hlaupið fyrir frama viðbúnaðarþjónustu Reykjavíkurflugvallar. Hlauparar þurftu að vera í sýnileikavestum eða skærum fatnaði í hlaupinu af öryggisástæðum.

Flugvöllurinn er lokaður fyrir öðru en sjúkra- og neyðarflugi eftir kl. 23:30 á kvöldin. Hlauparar voru þó búnir undir að rýma brautina og færa sig yfir á akbraut og fara þaðan aftur að upphafsstað hlaupsins ef til sjúkra- eða neyðarflugs kæmi. Þá yrði blásið í þokulúðra samkvæmt áhættumati fyrir hlaupið. Ekki kom þó til þess.

Engin formleg tímataka var í hlaupinu og enginn krýndur sigurvegari. Fyrstur til að ljúka þriggja kílómetra hlaupi var þó Hákon Jónsson. Dregið var um þátttökuverðlaun í hlaupinu og fengu nokkrir hlauparar glaðning að launum en allir fengu medalíur þess fyrir utan.