Hoppa yfir valmynd
14.10.2022
Rúmlega 800 nemendur kynntu sér störf hjá Isavia

Rúmlega 800 nemendur kynntu sér störf hjá Isavia

Ríflega 800 nemendur heimsóttu starfsgreinakynningu á Suðurnesjum sem haldin var í íþróttahúsinu í Keflavík þriðjudaginn 11. október síðastliðinn. Isavia var meðal þeirra fjölmörgu fyrirtækja á svæðinu sem gafst þar tækifæri til að kynna störf í sínum rekstri fyrir nemendum úr 8. og 10. bekk grunnskóla á svæðinu sem og nemendum úr Fjölbrautaskóla Suðunesja og hjá Keili.

Alls voru 115 starfsgreinar kynntar á starfsgreinakynningunni. Isavia kynnti nokkur af þeim fjöldamörgu störfum sem eru innt af hendi hjá félaginu. Gestir á kynningunni gátu m.a. rætt við rafeindavirkja hjá Isavia, flugumferðarstjóra, flugverndarstarfsfólk og starfsfólk í farþegaakstri á Keflavíkurflugvelli. Þá voru mannauðsráðgjafar Isavia á staðnum til að svara spurningum.

Auk starfsfólks Isavia tók starfsfólk frá breska fyrirtækinu Mace þátt í starfsgreinakynningunni. Mace hefur unnið með Isavia síðustu þrjú árin og haft verkefnaumsjón og eftirlit með framkvæmdum við stækkun Keflavíkurflugvallar. Hönnuðir frá Mace settu upp sýndarveruleika fyrir ný landamæri á svonefndu Stæði 6 í flugstöðinni. Áhugasamir gátu ferðast þar um eins og þeir væru í tölvuleik.

Þá kynnti Mace einnig líkan af framkvæmdunum. Farið var yfir hvað væri fram undan í framkvæmdunum og þær kynntar. Nemendur sýndu verkefnum Isavia mikinn áhuga.