Hoppa yfir valmynd
25.1.2018
Samgönguráðherra heimsótti Keflavíkurflugvöll

Samgönguráðherra heimsótti Keflavíkurflugvöll

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, heimsótti í vikunni Keflavíkurflugvöll og átti þar fund með forstjóra og framkvæmdastjórum Isavia.
 
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, tók á móti ráðherra og var honum kynnt starfsemi Isavia. Aðrir fulltrúar Isavia á kynningunni voru  Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri tækni- og eignasviðs Keflavíkurflugvallar, Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar, og Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri flugvallasviðs. Með ráðherra voru Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, og Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
 
Í kynningu á fundinum var farið yfir starfsemi Isavia, m.a. rekstur innanlandsflugvalla, flugleiðsöguþjónustu og rekstur Keflavíkurflugvallar. Þá var farið yfir þá uppbyggingu sem stæði fyrir dyrum á næstu árum og áratugum vegna aukinna umsvifa í flugi til og frá landinu og auknum fjölda ferðamanna sem koma til Íslands og fara um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
 
Í kynningu á fundinum með ráðherra var farið yfir þá framtíðarsýn Isavia að Keflavíkurflugvöllur verði miðstöð flugs á Norður-Atlantshafi. Þá var fjallað um rekstur innanlandsflugvalla og lendingarstaða á Íslandi og stöðu þeirra í núverandi mynd. Einnig var farið yfir flugstjórnarsvæðið sem Isavia rekur sem er um 5,4 milljónir ferkílómetra og eitt það stærsta í heimi.
 
Ráðherra fór einnig um flugstöðina þar sem hann kynnti sér ýmsa þjónustuliði í byggingunni. Honum var þá gerð nánari grein fyrir þeirri stækkun sem þegar hefði verð gerð á Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hvar áætlað væri að hefja næst framkvæmdir.