
Samið við Terra vegna bílastæða á Ísafjarðarflugvelli
Isavia Innanlandsflugvellir hefur skrifað undir samning við Terra umhverfisþjónustu um jarðvegsvinnu og lagnir á bílastæðum við Ísafjarðarflugvöll. Jarðvinna og síðan malbikun á bílastæðinu við Ísafjarðarflugvöll er ein af framkvæmdum á innanlandsflugvöllum og lendingarstöðum sem eru hluti af efnahagsátaki stjórnvalda vegna Covid-19.
Það voru Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, og Arngrímur Sverrisson, rekstrarstjóri hjá Terra, sem undirrituðu samninginn.
„Það er gaman að sjá þetta verkefni verða að veruleika,“ segir Sigrún Björk. „Bílastæðin verða tilbúin um miðjan júlí en lengi hefur verið beðið eftir að aðstaðan á stæðunum yrði bætt og nú eru framkvæmdir að hefjast.“