Hoppa yfir valmynd
26.3.2015
Samstarfssamningur flugleiðsöguþjónustuaðila í Ungverjalandi og á Íslandi

Samstarfssamningur flugleiðsöguþjónustuaðila í Ungverjalandi og á Íslandi

Samstarfssamningur milli flugleiðsöguþjónustuaðila Isavia á Íslandi og HungaroControl  Magyar Légiforgalmi Szolgálat Zrt í Ungverjalandi var undirritaður þann 10. mars síðastliðinn. Samningurinn var undirritaður í Madríd þar sem fulltrúar beggja aðila sóttu World ATM 2015 sýninguna.
 
Samningurinn kveður á um samhæfingu á sviði rannsóknar- og þróunarvinnu fyrirtækjanna tveggja, ásamt samnýtingu á hugviti og þekkingu. Samstarfið mun tryggja sameiginlega þátttöku landanna í rannsóknar- og þróunaráætlun Evrópusambandsins í samræmi við evrópskar samþættingarkröfur (Single European Sky, SES).
 
Ásgeir Pálsson framkvæmdastjóri flugleiðssöguþjónustu Isavia og forstjóri HungaroControl, Kornél Szepessy handsala samninginn.
 
Íslenskir og ungverskir veitendur flugleiðsöguþjónustu hafa undirritað samning um samhæfingu á sviði rannsóknar- og þróunarvinnu. Samningurinn var undirritaður í Madríd þar sem fulltrúar beggja landa sóttu alþjóðlega sýningu um flugleiðsögu. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar og haldin árlega. Samstarfssamningurinn gerir ráð fyrir rannsóknar- og þróunarvinnu beggja aðila, einkum hvað varðar þróun og prófanir á hvers kyns nýjungum og lausnum, framförum í flugumferðarstjórnarhermum með innleiðingu nýrrar tækni, sem og þróunar- og undirbúningsvinnu fyrir þjálfunarpakka.
 
 
Samstarfssamningurinn er staðfesting á því að veitendur flugumferðarþjónustu á tveimur gerólíkum flugstjórnarsvæðum geti tekið höndum saman um að bæta gæði þeirrar þjónustu sem flugfélögin þurfa á að halda. Samningurinn er í samræmi við þau skref sem Alþjóða flugmálastofnunin og Framkvæmdastjórn ESB hafa tekið til að auka skilvirkni og hagræðingu í evrópskri flugleiðsögu.
 
„Öflugt svar við þeim breytingum sem tengjast mikilli aukningu í flugumferð og þeim krefjandi verkefnum sem fylgja samþættingu Evrópu, alþjóðlegri samvinnu og möguleikum á að koma nýjungum á framfæri. HungaroControl leggur áherslu á að vinna náið með og læra af samstarfsaðilum sínum á hinum ýmsu stigum til að leggja sitt af mörkum til SESAR rannsóknar- og þróunarverkefnanna sem miða að því að skapa framtíðar flugleiðsögukerfi Evrópu,” segir forstjóri HungaroControl, Kornél Szepessy.
 
„Isavia lítur líka á þetta samstarf sem frábært tækifæri. Þar sem það er viðbót við svæðisbundna og tvíhliða samninga sem þegar eru til staðar, eykur það möguleikana í rannsóknar- og þróunarstarfi beggja aðila og styður markaðssókn þeirra í tengslum við flugleiðsögutækni og ráðgjafaþjónustu.
Þetta samstarf gerir báðum fyrirtækjunum kleift að auka færni sína og bæta skilvirkni þeirra auðlinda sem þau hafa yfir að ráða,” segir Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia.