Hoppa yfir valmynd
15.10.2019
Samvinna í flugi á Norðurslóðum til umræðu á Arctic Circle

Samvinna í flugi á Norðurslóðum til umræðu á Arctic Circle

Alþjóðasamstarf í flugleiðsögu á Norðurslóðum og fjarstýrðir flugturnar voru meðal þess sem var til umræðu á sérstökum viðburði Isavia á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu laugardaginn 12. október síðastliðinn. Isavia var þá sem fyrr þátttakandi og stuðningsaðili Arctic Circle sem haldin var hér á landi í sjöunda sinn.

Viðburður Isavia bar yfirskriftina „Aviation in the Arctic“ eða „Flugmál á Norðurslóðum“. Fyrst tók Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia, til máls og fjallaði um aðferðafræðina sem notuð er í alþjóðasamstarfi á vegum NAT SPG, Cross Polar Working Group og Borealis Alliance – sem allt eru vettvangar fyrir samstarf í flugleiðsögu og samvinnu milli flugstjórnarsvæða. Markmiðið að tryggja greiðar samgöngur í samvinnu ríkja á Norðurslóðum.

Næst tók Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia, til máls. Hún ræddi m.a. um þróun innanlandsflugvallakerfisins á Íslandi frá 1986 til dagsins í dag, aðferðir til að opna fleiri gáttir til Íslands og tilraunir með fjartengda flugturna (Remote Tower) á Íslandi. Slík kerfi hafa verið í þróun víða um Evrópu og einnig í Bandaríkjunum og Kanada.

Að lokum fjallaði Þórdís Sigurðardóttir, yfirflugumferðastjóri hjá Isavia, nánar um Cross Polar Working Group samstarfið.

Ásgeir var einnig með kynningu á viðburði að kvöldi laugardagsins þar sem fjallað var um öryggi á sjó á Norðurslóðum. Ásgeir gerði þar grein fyrir samskiptum og kögun á svæðinu.