Hoppa yfir valmynd
3.4.2023
Samvinnuverkefni sem hraðar orkuskiptum í flugi á Norðurlöndunum

Samvinnuverkefni sem hraðar orkuskiptum í flugi á Norðurlöndunum

Isavia og aðrir rekstraraðilar flugvalla og flugfélaga á Norðurlöndunum hafa nú tekið höndum saman um að hraða eftir fremsta mætti orkuskiptum í flugi.

Isavia, með dótturfélag sitt Isavia Innanlandsflugvelli í fararbroddi, hefur ásamt samstarfsaðilum í rafmagnsflugvélaverkefninu NEA (Nordic Network for Electric Aviation) undirritað samning við norrænu nýsköpunarstofnunina Nordic Innovation um að hrinda í framkvæmd öðrum áfanga þessa mikilvæga samstarfsverkefnis.

NEA 2.0 verður vettvangur samstarfs þar sem kortlagt verður hvaða breytingar þarf að gera á innviðum til að skipta yfir í rafmagnsflug milli Norðurlandanna og innan þeirra. Viðskiptamódelið fyrir verkefnið verður þróað áfram og metið hvaða kröfur þarf að gera í öryggismálum þegar kemur að flugi á rafmagnsflugvélum og þjónustu við þær.

NEA verkefninu var upphaflega hrundið af stað í október 2019, en Isavia kemur nú inn í annan hluta verkefnisins. Auk Isavia koma þar að flugvallarekendurnir Avinor í Noregi, Finavia í Finnlandi, Swedavia í Svíþjóð og Kaupmannahafnarflugvöllur. Þá eru það flugfélögin Icelandair, SAS og BRA í Svíþjóð. Þá koma fyrirtæki sem leggja áherslu á orkuskipti í flugi – Green Flyway, Elfly Group, Heart Aerospace og NISA (Nordic Initiative for Sustainable Aviation).

Nordic Innovation er norræn stofnun sem hefur það hlutverk að stuðla að viðskiptum og nýsköpun á alþjóðavettvangi. Hún heyrir undir Norræna ráðherraráðið og leikur lykilhlutverk í framkvæmd samvinnuverkefna á sviði viðskipta, atvinnulífs og nýsköpunar.

„Flugiðnaðurinn leitar nú allra leiða til orkuskipta í flugi til framtíðar,“ segir Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Isavia. „Norðurlöndin ætla að vera fremst í flokki í þeim efnum og vera fyrirmynd annarra heimshluta þegar kemur að rafknúnum flugvélum. Hjá okkur er áherslan fyrsta kastið að liðka fyrir orkuskiptum í innanlandsflugi.“

„Ísland og íslenska innanlandsflugvallakerfið eru gott tilraunaverkefni í þessu góða samstarfi Norðurlandanna,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. „Við höfum bent á að það er stutt á milli áfangastaða í innanlandsflugi og hægt að nota hundrað prósent endurnýjanlega orkugjafa í verkefnið. Fyrsta farþegaflug rafmagnsflugvélar á Íslandi í ágúst í fyrra var gríðarlega mikilvægt skref í þá átt“

Hér má lesa nánar um NEA verkefnið og hér má sjá meira um samstarfið við Nordic Innovation.