Hoppa yfir valmynd
31.7.2018
Securitas og Isavia gera með sér samning um öryggisleit

Securitas og Isavia gera með sér samning um öryggisleit

Securitas hefur skrifað undir samstarfssamning við Isavia um hluta af öryggisleit á Keflavíkurflugvelli. Samningurinn innifelur að Securitas mun sinna öryggisleit í verktakahliðum á Keflavíkurflugvelli ásamt öryggisleit komufarþega frá þriðju löndum. Í framhaldi af útboði í júní síðastliðnum var gengið til samninga við Securitas.  Securitas mun taka yfir þjónustuna á næstu dögum og er undirbúningur í fullum gangi.

Árni Gísli Árnason, deildarstjóri flugverndar á Keflavíkurflugvelli: „Sá mikli og hraði vöxtur sem orðið hefur á Keflavíkurflugvelli hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum. Í vextinum hefur flugverndardeild Keflavíkurflugvallar stækkað mikið og starfsfólki fjölgað. Samhliða þessum vexti hafa alþjóðlegar kröfur í flugvernd á flugvöllum einnig aukist. Þetta tvennt hefur orðið til þess að við höfum fengið verktaka til að sinna sérverkefnum í flugvernd. Með aðkomu verktaka aukum við einnig sveigjanleika sem er mikilvægt að hafa þegar miklar framkvæmdir standa yfir.

Telma Dögg Guðlaugsdóttir, útibússtjóri Securitas Reykjanesi: „Við erum mjög stolt af því að Isavia skyldi velja okkur til þessa verkefnis. Reynsla okkar af sambærilegum verkefnum er mjög góð og samstarf við Isavia í gegnum árin farsælt. Við höfum sinnt sambærilegri þjónustu fyrir Isavia á Reykjavíkurflugvelli til fjölda ára með góðum árangri.  Starfsfólki Securitas fjölgar mjög ört hér á Reykjanesi enda hefur samstarfið við United Airlines, Isavia og fleiri gengið vel.  Securitas á Reykjanesi er frábærlega staðsett með tilliti til þessara samstarfsaðila, auk skrifstofu okkar á Iðavöllum erum við nú með skrifstofuaðstöðu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ásamt stórri starfsaðstöðu fyrir okkar starfsfólk til að mæta auknum starfsmannafjölda og þörfum þeirra.“