
Securitas og Isavia gera með sér samning um öryggisleit
Securitas hefur skrifað undir samstarfssamning við Isavia um hluta af öryggisleit á Keflavíkurflugvelli. Samningurinn innifelur að Securitas mun sinna öryggisleit í verktakahliðum á Keflavíkurflugvelli ásamt öryggisleit komufarþega frá þriðju löndum. Í framhaldi af útboði í júní síðastliðnum var gengið til samninga við Securitas. Securitas mun taka yfir þjónustuna á næstu dögum og er undirbúningur í fullum gangi.
Árni Gísli Árnason, deildarstjóri flugverndar á Keflavíkurflugvelli: „Sá mikli og hraði vöxtur sem orðið hefur á Keflavíkurflugvelli hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum. Í vextinum hefur flugverndardeild Keflavíkurflugvallar stækkað mikið og starfsfólki fjölgað. Samhliða þessum vexti hafa alþjóðlegar kröfur í flugvernd á flugvöllum einnig aukist. Þetta tvennt hefur orðið til þess að við höfum fengið verktaka til að sinna sérverkefnum í flugvernd. Með aðkomu verktaka aukum við einnig sveigjanleika sem er mikilvægt að hafa þegar miklar framkvæmdir standa yfir.
Telma Dögg Guðlaugsdóttir, útibússtjóri Securitas Reykjanesi: „Við erum mjög stolt af því að Isavia skyldi velja okkur til þessa verkefnis. Reynsla okkar af sambærilegum verkefnum er mjög góð og samstarf við Isavia í gegnum árin farsælt. Við höfum sinnt sambærilegri þjónustu fyrir Isavia á Reykjavíkurflugvelli til fjölda ára með góðum árangri. Starfsfólki Securitas fjölgar mjög ört hér á Reykjanesi enda hefur samstarfið við United Airlines, Isavia og fleiri gengið vel. Securitas á Reykjanesi er frábærlega staðsett með tilliti til þessara samstarfsaðila, auk skrifstofu okkar á Iðavöllum erum við nú með skrifstofuaðstöðu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ásamt stórri starfsaðstöðu fyrir okkar starfsfólk til að mæta auknum starfsmannafjölda og þörfum þeirra.“