Hoppa yfir valmynd
13.12.2023
Sérkenni íslensku jólasveinanna á Keflavíkurflugvelli

Sérkenni íslensku jólasveinanna á Keflavíkurflugvelli

Gestum Keflavíkurflugvallar gefst nú tækifæri til að kynnast sérkennum íslensku jólasveinanna á sérstakri jólasýningu í brottfararsal flugvallarins. Sýningin er sett upp í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands í tilefni 160 ára afmælis Þjóðminjasafnsins.

Reist hefur verið jólahús sem minnir á gömlu torfbæina. Þar má finna ýmsa gripi sem tengjast klækjum og kenjum íslensku jólasveinanna, til dæmis ask fyrir Askasleiki, skyr fyrir Skyrgám og glugga fyrir Gluggagægi til að gægjast inn um. Vísur eftir Jóhannes úr Kötlum, sem fjalla um jólasveinana og lymskubrögð þeirra, eru til sýnis við jólahúsið.

„Jólasýning Þjóðminjasafnsins mun vonandi gleðja gesti Keflavíkurflugvallar. Við settum ýmsa muni í jólahúsið tengda jólasveinunum sem gestir geta skoðað og hjálpa þeim vonandi að skilja nöfnin þeirra. Það er sérstaklega skemmtilegt að erlendir gestir fá að kynnast íslensku jólasveinunum,“ segir Kristín Ýr Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Þjóðminjasafns Íslands.

Jólasýningin stendur fram yfir þrettándann, 6. janúar 2024, og er opin öllum gestum Keflavíkurflugvallar.