Hoppa yfir valmynd
4.6.2020
Sex flugfélög tilkynna flug um Keflavíkurflugvöll í sumar

Sex flugfélög tilkynna flug um Keflavíkurflugvöll í sumar

Nú liggur fyrir að stjórnvöld á Íslandi hafa ákveðið að hefja skimun fyrir Covid 19 á Keflavíkurflugvelli. Þá getur fólk við komuna til landsins valið milli þess að fara í sýnatöku, framvísað vottorði að utan eða fara í tveggja vikna sóttkví.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta- og þróunar hjá Isavia segir að flugfélög hafi sýnt áhuga á að fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli þegar tilkynnt var um skimun á vellinum. „Við höfum fundið mjög greinilega fyrir áhuga flugfélaga að byrja að fljúga hingað í framhaldi af þeirri tilkynningu,“ sagði Guðmundur Daði.

Sex flugfélög hafa tilkynnt um áform sín um flug um Keflavíkurflugvöll í sumar.

  • Atlantic Airways áforma að fljúga þrisvar í viku til Færeyja.
  • Czech Airlines hefur tilkynnt um flug frá Keflavík til Prag í Tékklandi tvisvar í viku frá 17. júní. Það kann að verða fjórum til sex sinnum í viku í júlí en það veltur á eftirspurn.

  • Icelandair hefur auglýst ferðir til Kaupmannahafnar daglega frá 15. júní. Þá ætlar félagið að fljúga fjórum sinnum í viku til Amsterdam frá 16. júní.
  • SAS hefur flug til og frá Kaupmannahöfn 15. júní. Flogið verður fjórum sinnum í viku.
  • Transavia hefur tilkynnt að það fljúgi þrisvar í viku frá Keflavíkurflugvelli til Amsterdam frá 19. Júní.
  • Wizz air hefur ákveðið að hefja flug frá Keflavík til Mílanó á Ítalíu þrisvar í viku frá og með 3. júlí.

Þá eru nokkrar ferðir á áætlun hjá Wizz air í byrjun júní til Búdapest, London Luton og Vínarborgar. Ekki liggur fyrir hvort framhald verður á því.

Fjögur flugfélög hafa tilkynnt að þau ætli ekki að fljúga til Íslands í sumar. Það eru bandarísku flugfélögin American Airlines, Delta og United og kanadíska flugfélagið Air Canada.

Guðmundur Daði segir Isavia vera í nánu sambandi við flugfélög, þar á meðal þau sem flogið hafa til Íslands áður. Flugfélögin séu vel upplýst um hver staðan er á Íslandi og hvernig mál eru að þróast hér og þá fái Isavia reglubundið upplýsingar um stöðu mála hjá flugfélögunum. Vonast er til að góður árangur Íslands í baráttunni við COVID-19 hafi jákvæð áhrif á fleiri flugfélög þannig að við sjáum fleiri áfangastaði bætast við á næstu misserum.