Hoppa yfir valmynd
17.3.2017
Sjálfvirk landamærahlið á Keflavíkurflugvelli í sumar

Sjálfvirk landamærahlið á Keflavíkurflugvelli í sumar

 
Isavia skrifaði á dögunum undir samning við fyrirtækið secunet um uppsetningu sjálfvirkra landamærahliða á Keflavíkurflugvelli. Samningurinn er gerður að undangengnu útboði og í góðu samstarfi við ríkislögreglustjóra og lögreglustjórann á Suðurnesjum, en landamæraeftirlit á Keflavíkurflugvelli er framkvæmt af lögreglunni. Alls verða tólf hlið sett upp í sumar og er gert ráð fyrir að þau muni hraða afgreiðslu í landamæraeftirliti og auka þægindi farþega. Hröð og góð afgreiðsla í landamæraeftirliti skiptir farþega miklu máli og sérstaklega þegar þeir nota Keflavíkurflugvöll sem tengipunkt á milli Evrópu og Norður-Ameríku, en tengifarþegum sem fara um flugvöllinn fer sífellt fjölgandi.
 
Sjálfvirk landamærahlið eru orðin algeng sjón á flugvöllum í Evrópu og eru secunet landamærahliðin meðal annars notuð á stærstu flugvöllum í Þýskalandi, auk flugvallarins í Prag í Tékklandi. Hliðin lesa upplýsingar í vegabréfi farþega auk þess að bera myndina í vegabréfinu við mynd sem hliðið tekur af farþeganum á flugvellinum. Þannig komast farþegar um landamærin á öruggan og fljótlegan hátt. Landamæraeftirlitið fylgist með notkun og taka lögreglan og landamæraverðir við ef hliðin telja að skoða þurfi ákveðið vegabréf betur.
 
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia: „Við erum hæstánægð með að taka í notkun sjálfvirk landamærahlið á Keflavíkurflugvelli. Við höfum unnið markvisst að því að auka sjálfvirkni á flugvellinum og þegar landamærahliðin verða komin upp verðum við búin að innleiða sjálfsafgreiðslu á öllum helstu stöðum þar sem biðraðir geta myndast. Það á við um innritun farþega og farangurs, skoðun á brottfararspjaldi, vopnaleit, vegabréfaeftirlit og byrðingu. Þessi áhersla á aukna sjálfvirkni hefur skilað sér í stórauknum þægindum fyrir farþega og gert allt ferðalagið um flugstöðina skilvirkara og betra.“
 
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum: „Við í lögreglunni á Suðurnesjum erum spennt fyrir því að taka nýju hliðin í notkun en þau munu verða til þess að við getum haldið uppi góðu þjónustustigi og afköstum í landamæraeftirliti án þess að það komi á nokkurn hátt niður á öryggi. Samstarfið við Isavia hefur verið mjög gott og verður það ánægjulegt fyrir okkur og ekki síst fyrir farþegana þegar hliðin verða komin í notkun í nýjum og stærri landamærasal á Keflavíkurflugvelli.“